Hlutabréf í Icelandair hafa fallið um rúmlega tólf prósent frá því að markaðir opnuðu í morgun. Ástæðan er sú að tilkynnt var um að félagið væri hætt við að kaupa WOW air, en það var gert fyrir opnum markaða í dag.
Tilkynningin hefur haft mikil neikvæð áhrif á öll félög sem skráð eru á íslenskan hlutabréfamarkað. Þau hafa öll lækkað í verði í dag utan Heimavalla, sem er ódýrasta félagið í kauphöllinni. Það félag sem lækkað hefur næst mest er Festi, sem hét áður N1. Bréf þess hafa lækkað um alls sex prósent en Festi er eldsneytissali WOW air. Framtíð þess flugfélags er nú í lausu lofti.
Icelandair greindi frá því í morgun að félagið væri hætt við að kaupa WOW air. í tilkynningu þess sagði:„Fallið hefur verið frá kaupum Icelandair Group á WOW air en kaupsamningur var undirritaður þann 5. nóvember sl. Þetta er sameiginleg niðurstaða beggja aðila.“
Hluthafafundur Icelandair Group verður haldinn föstudaginn 30. nóvember eins og áður hefur verið auglýst. Á fundinum liggur fyrir tillaga um heimild stjórnar til að auka hlutafé Icelandair Group.“
Fréttin var uppfærð klukkan 11:30