Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins, segist harma þau ummæli sem hann lét falla á veitingastað, og beindust meðal annars að Ingu Sæland, formanni fólksins.
Upptökur af samtölum hans við Miðflokksmennina Sigmund Davíð Gunnlaugsson, Bergþór Ólason og Gunnar Braga Sveinsson og Ólaf Ísleifsson, samflokksmann hans í Flokki fólksins, voru sendar til DV og Stundarinnar, sem birtu umfjallanir upp úr þeim í gær. Samtölin fóru fram 20. nóvember síðastliðinn.
Í umfjöllun DV, þar sem Karl Gauti kemur við sögu, segir meðal annars: „Þá bar Ingu Sæland oft á góma og hún sögð hafa „grenjað“ sig inn á þing. Þá sagði Karl Gauti Hjaltason þingmaður Flokks fólksins: „Ólafur er örugglega sammála mér að Inga Sæland getur þetta ekki.“ Þá sagði Gunnar Bragi: „Þið verðið að átta ykkur á að þið getið ekki endalaust látið madame Sæland grilla ykkur eins og þið séuð ekki til.“ Þá bætti Gunnar Bragi við:
„Eruð það þið sem munið njóta næstu kosninga eða Inga?“ Karl Gauti sem er í sama flokki og Inga sagði síðan á öðrum stað að hún gæti ekki stjórnað en hvorki Karl né Ólafur komu formanni sínum til varnar á meðan á samtali þingmannanna stóð. Þá sagði Karl Gauti einnig: „Hún getur grenjað um þetta en getur ekki stjórnað.““
Í yfirlýsingu sem Karl Gauti sendi frá sér í nótt, segist hann harma ummæli sín.
„Ég harma ummæli sem ég lét falla á veitingastað fyrir stuttu síðan og hafa birst í nokkrum fjölmiðlum. Af því tilefni vil ég taka fram að ég er ekki á förum úr Flokki fólksins, styð stefnu flokksins og ber traust til formanns hans, Ingu Sæland. Við höfum unnið að einurð fyrir kjósendur okkar og lagt fram mörg góð mál sem við hétum því að vinna að. Karl Gauti Hjaltason, alþingismaður