Fyrir ári síðan hófu Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir stjórnarsamstarf. Í tilefni dagsins líta formenn stjórnarflokkanna, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, yfir fyrsta ár ríkisstjórnarinnar, afrakstur ársins og fjalla um mikilvægi þess að ólíkir flokkar geti starfað saman í sátt í aðsendri grein þeirra í Morgunblaðinu í dag.
Eftir óvæntar kosningar í fyrra og margar tilraunir til stjórnarmyndurnar, hófu þessir flokkar stjórnmyndurnarumræður og tveimur vikum seinna var ný ríkisstjórn kynnt til leiks. Í greininni fjalla formenn flokkanna um hvernig stefna þeirra í stjórnarmyndarumræðunum hafi verið að flýta sér hægt og vanda til verka, „Það er nefnilega svo að gott samstarf og samráð tekur tíma,“ segir í greininni. Þau segja að það hafi jú verið flókið að mynda stjórn flokka sem ekki eru náttúrlegir bandamenn í stjórnmálum, en þau segja jafnframt að flókið þurfi ekki endilega að vera slæmt. Samkvæmt formönnunum eru mál fyrir vikið unnin í meiri pólitískri sátt og vonandi mál sem geta staðist tímans tönn og sviptingar í pólitík
Gerir mann stærri að vinna með þeim sem eru ósammála manni
Í greininni fjalla Katrín, Bjarni og Sigurður Ingi um það hvernig ein helsta gagnrýnin sem höfð hefur verið uppi á ríkistjórnina hafi verið um hún hafi verið mynduð en ekki verk hennar. En samkvæmt leiðtogum ríkisstjórnarinnar gerir það mann stærri að vinna með þeim sem eru ósamála manni.
Þau fjalla um hvernig það hefur sjaldan verið mikilvægara að sýna fram á það að hægt sé að taka tillit til ólíkra sjónarmiða, miðla málum og vinna samhent að sameiginlegum markmiðum, þvert á flokka. Þau segja það sé samfélaginu öllu til heilla, sérstaklega nú vegna uppgangs öfga- og lýðskrumaflokka víða um heim. „Þetta er vert að hafa í huga þegar sjá má öfga- og lýðskrumsflokka og stjórnmálamenn sækja í sig veðrið víða um heim. Markmið þeirra er gjarnan að sundra og grafa undan þeim lýðræðislegu gildum sem hafa tryggt stórstígar framfarir í mannréttindamálum, hagsæld og öryggi,“ segir í greininni.
Stolt af árangrinum
Þau segja frá því í greininni hvernig íslenskt efnahagslíf hafi náð undraverðum bata á þeim tíu árum sem liðin eru frá hruni og hvernig Íslendingar hafi búið við samfelldan hagvöxt og batnandi kaupmátt og lífskjör. Ásamt því telja þau að ytri aðstæður hafi verið landinu hagfelldar. Formenn stjórnarflokkana undirstrika að eitt af þeim verkefnum sem þessi ríkisstjórn einsetti sér var að ráðast í að skila hagsældinni sem hér hefur ríkt til alls samfélagsins og gæta þess að komandi kynslóðir njóti hennar líka. Þau segja að það hafi verið gert með því að ráðast í uppbyggingu innviða.
Ráðherrarnir segjast vera stoltir af þeim árangri sem náðst hefur á fyrsta starfsári þeirra. Því til sýnis nefna þau að ríkisstjórnin hafi lagt fram tvenn fjárlög og aukið framlög til samfélagslegra verkefna og innviða verulega, eða samtals um 90 milljarða króna. Í greininni telja þau upp mál sem ríkisstjórnin hefur staðið að, þeirra á meðal nefna þau lækkun tryggingargjalds, að nýtt dómsstig hafi tekið til starfa og hagsmunagæsla vegna EES samstarfsins verið styrkt. Ásamt því hafi skref verið tekin til að innleiða stafræna stjórnsýslu, framkvæmdir hafnar við uppbyggingu nýs meðferðarkjarna Landspítalans og að kynnt hafi verið metnaðarfull aðgerðaáætlun í loftlagsmálum.
Í greininni nefna þau einnig að sérstök áhersla hafi verið lög á samráð við aðila vinnumarkaðarins og að í skattabreytingum þeirra hafi verið lögð aukin áhersla á jöfnuð.