„Þetta er annað dæmi þar sem ríkið hefur árum saman tuddað á bæði neytendum og fyrirtækjum alveg með opin augun, vitandi að það er að brjóta EES-samninginn og að brjóta lög.“
Þetta segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, um þá staðreynd að ríkið afnemi ekki bann við innflutningi á fersku kjöti, eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk þrátt fyrir að fyrir liggi dómar bæði Hæstaréttar og EFTA-dómstólsins um að bann við þeim innflutningi brjóti í bága við EES-samninginn.
Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við Ólaf í þættinum 21 á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í vikunni. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Ólafur segir að það sem valdi þessari afstöðu sé ótti við sérhagsmuni. „Á sínum tíma samdi Ísland um upptöku matvælalöggjafar Evrópusambandsins í EES-samninginn. Það átti ekki bara við um búvörurnar heldur líka sjávarafurðir. Þannig að sjávarafurðir rétt eins og búvörur lúta heilbrigðiseftirliti á upprunastað og síðan eru þær í frjálsu flæði á milli aðildarríkjanna.[...]Þetta er náttúrulega gífurlegt hagsmunamál íslensks sjávarútvegs og Íslands sem matvælaútfutningslands. Þegar Alþingi tekur upp alla matvælalöggjöfina í EES nema viðheldur banninu á þessum vörum þá er fyrst og fremst að vera að bregðast við alveg óheyrilegum þrýstingi frá Bændasamtökum Íslands og stjórnmálamönnum sem eru þeim handgengnir.“
Ólafur segir að með því að halda þessu til streitu, að heimila ekki innflutninginn, þá séu menn að setja EES-samninginn og alla þá hagsmuni íslensks atvinnulífs sem felist í honum, í hættu. „Þar eru menn klárlega að spila með miklu meiri hagsmuni fyrir minni.“
Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér að neðan: