Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, sagði í viðtali við þáttinn Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag, að hann sæi ekki síst eftir því að hafa ekki „gripið fyrr inn í“ samræður sem hann átti við félaga sína í Miðflokknum, á barnum Klaustur, 20. nóvember síðastliðinn.
Upptökur náðust af tali sex þingmanna, eins og greint hefur verið frá í gær og í dag, en þær voru sendar til DV og Stundarinnar, sem hafa sagt fréttir upp úr þeim síðan, og aðrir fjölmiðlar sömuleiðis.
Sigmundur Davíð, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmenn Miðflokksins, sátu og drukku áfengi klukkutímum saman, og töluðu illa um mikinn fjölda samstarfsmanna sinna á Alþingi, og ekki síst með niðrandi hætti um konur.
Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson í Flokki fólksins gerðu slíkt hið sama, og hafa þeir nú verið reknir úr flokknum. Bergþór og Gunnar Bragi eru farnir í leyfi, en ekki liggur fyrir hverjar forsendur þess eru, t.d. hvort það er ólaunað eða ekki.
Sigmundur Davíð sagði í viðtali við Reykjavík síðdegis að hann hefði ekki íhugað stöðu sína vegna þessa máls, en telur að það geti haft áhrif á andann í þinginu. „Það er viðbúið. Vonandi verður það bara til þess að það verði breyting á þessu almennt. Mér hefur reyndasr fundist mjög skrítið að fólk sem ég hef hlustað á segja hreint ótrúlega hluti um félaga sína, birtast núna fullir vandlætingar yfir þessu tilviki sem tekið var upp. Ég vona ða það fólk muni þó sjálft breyta því hvenrig það nálgast hlutina. Við munum í það minnsta gera það í mínum flokki.“