Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, sagði á drykkjufundi með samflokksfólki sínu og tveimur þingmönnum Flokks fólksins, sem verið var að reyna að sannfæra um að ganga til liðs við Miðflokkinn, að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, gæti sett „bara inn einhverja öryrkja í fyrsta sæti í hverju kjördæmi fyrir sig,“ í næstu kosningum.
Þetta kemur fram í fréttaskýringu Kvennablaðsins um það sem fram kemur á upptöku af drykkjufundi sex þingmanna á Klausturbarnum þriðjudaginn 20. nóvember. Þar kemur skýrt fram að viðstaddir þingmenn Miðflokksins leggja hart að Ólafi Ísleifssyni og Karli Gauta Hjaltasyni, að ganga til liðs við sig í stað þess að fylgja Ingu Sæland áfram. Bergþór segir um Ingu að „Guggan getur tekið upp á því að setja saman uppstillingarnefnd. Setja bara inn einhverja öryrkja í fyrsta sæti í hverju kjördæmi fyrir sig. Ef hún vill halda flokknum uppi með 7–9% fylgi fyrir næstu kosningar þá er hún bara ekki vitibornari en það að hún telur þetta fast í hendi. Ég vil bara ítreka það að ykkur verður í engu umbunað fyrir að … hún heldur að hún eigi þetta.“
Sagður hafa misst vatn við að hitta Obama
Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður Miðflokksins, segir í kjölfarið að honum finnist þetta rosalega flokk greining „því þú greindir um leið ákveðna hluti í Framsóknarflokknum, þegar við vorum þar. Þegar Sigurður Ingi og co. ákváðu það að fara gegn formanni flokksins, þá voru þeir búnir að … að þeir gætu bara tekið flokkinn, þetta væri bara Shangri-la. Þeir gleyma hins vegar, Sigurður Ingi, aka Sæland, Sigurður Sæland, hann fattaði bara ekki að hann hefur ekki það lím, og hann hefur ekki það … sem þarf til að halda svona hlutum …“
Gunnar Bragi heldur áfram að atyrða Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins, sem sigraði Sigmund Davíð Gunnlaugsson, núverandi formann Miðflokksins, í formannskjöri haustið 2016. Gunnar Bragi segir að „þegar Sigurður Ingi var búinn að fara til Washington, sitja matarboð hjá Obama – það var bara eins og hann hefði misst vatn.“
Sigmundur Davíð tekur við og segir að Sigurður Ingi hafi sest „við nafnspjaldið mitt á borðinu. Hann varð aldrei sami maður aftur. Eins og nágrannar hans í sveitinni hans sögðu: þegar þau hjón komu til baka frá Washington, þau bara þekktu þau ekki.“
Gunnar Bragi heldur áfram og bendir á að Sigmundur Davíð hefði líka hitt Obama „og þú varst nú ekki einu sinni í samstæðum skóm!“
„Ekki komin í pólitík til þess að sitja í hjólastólnum sínum“
Í frásögn Kvennablaðsins er einnig greint frá því þegar Gunnar Bragi ræður um Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, formann Öryrkjabandalags Íslands.
Hann segist þekkja hana mjög vel. „Við erum samsveitungar. Hún er búin að gera auglýsingar og teikna fyrir mig í mörg ár. Ofboðslega góð kona. Hrikalega frek. Hvar haldið þið að hún verði í framboði á næsta ári? Hún verður ekki í framboði í Vesturkjördæmi. Hvar haldið þið að Þuríður Harpa verði í framboði næst? Hún verður í framboði þar sem er möguleiki að ná inn manni[...] Hún er ekki komin í pólitík til þess að sitja í hjólastólnum sínum og rífast einhvers staðar úti á kanti. Hún er komin í pólitík til að vera inni á þingi. Ég get lofað ykkur því, hún verður í framboði í efsta sæti einhvers staðar. Þá spyr maður, sjálfan sig og aðra: hver verður fyrri til, til að grípa hana? Verður það Flokkur fólksins, Samfylkingin? VG? … Ég held ég þekki hana það vel, hún er nú ekki algalin, hún Harpa. Hún mun fara með Ingu eða hún mun fara með VG.“
Ánægður með að Sigmundur Davíð húðskammaði sig
Í Kvennablaðinu er einnig rakin frásögn Gunnars Braga af því þegar Sigmundur Davíð, þá forsætisráðherra, hafi húðskammað hann á ríkisstjórnarfundi, og hvernig Gunnari Braga hafi líkað það vel. „Við tveir erum búnir að vinna saman síðan 2009, 2010. Ég kaus hann ekki sem formann Framsóknarflokksins og ég sé eftir því, það mun elta mig alla ævi. Og ég held að Sigmundur sé, eini maðurinn sem hann hefur skammað fyrir framan heila ríkisstjórn, það er ég. Hann hundskammaði mig fyrir framan ríkisstjórnina. Ég var svo glaður, ég var svo ánægður með að hann skyldi sýna þessum fávitum í ríkisstjórninni að honum er bara ekkert sama hvernig maður hegðar sér og vinna. Hann grillaði mig fyrir framan alla hina ráðherrana. Ég kom til hans daginn eftir, eftir ríkisstjórnarfundinn (og sagði): frábært, gerðu þetta aftur! Taktu hina fyrir líka! Hann hélt ég væri geðveikur, sko.“
Gunnar Bragi segir að þetta hafi snúist um að Gunnar Bragi hafi skorað Sigmund Davíð á hólm með mál í ríkisstjórninni. „Hann tók það og pakkaði því saman. Það er nefnilega það, að ef þú vilt að einhver taki mark á stjórninni þá þarftu að standa fyrir eitthvað.“ Í kjölfarið gera Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi grín að Páli Magnússyni, sem bauð sig fram til formanns gegn Sigmundi Davíð árið 2009 ásamt Höskuldi Þórhallssyni. „Páll gæti ekki stýrt húsfélagi,“ sagði Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi bætti við: „Páll Magnússon, hann gæti ekki einu sinni stýrt umferðarljósum.“