WOW air tapaði 33,6 milljónum dala, sem jafngildir um 4,2 milljarði króna, á fyrstu níu mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra nam tap félagsins 13,5 milljónum dala, jafnvirði tæplega 1,7 milljarða króna miðað við núverandi gengi. Þetta kemur fram í nýbirtu uppgjöri flugfélagsins.
Rekstrarkostnaður félagsins hækkaði um 46 prósent milli ára
Tekjur WOW air námu 501,4 milljónum dala, um 61,5 milljörðum króna, á fyrstu níu mánuðum ársins og jukust um 31 prósent frá sama tímabili í fyrra þegar þær voru 371,8 milljónir dala.
EBITDA félagsins fór úr því að vera jákvæð um 8,8 milljónir dollara fyrstu níu mánuði síðasta árs í að vera neikvæð um 18,9 milljónir nú, um 2,3 milljarða íslenskra króna.
Eiginfjárhlutfall félagsins var 7 prósent í lok september. Eignir þess námu 421 milljón dollara, skuldir 393 milljónum dollara og eigið fé 28 milljónum dollara. Handbært fé félagsins nam 40 milljónum dollara í lok september og hækkaði um 35 milljónir dollara á fjórðungnum.
Rekstrarkostnaður íslenska lággjaldaflugfélagsins nam 466,9 milljónum dala á tímabilinu og hækkaði um tæp 46 prósent frá sama tímabili árið 2017 þegar hann nam um 320,6 milljónum dala, að því er fram kemur í árshlutareikningnum. Rekstrartap flugfélagsins (EBIT) nam jafnframt 35,6 milljónum dala á fyrstu níu mánuðum þessa árs borið saman við 4,1 milljón dala á sama tíma á síðasta ári.
Neikvæð umræða hafði áhrif á fjárhagsstöðu félagsins
Í tilkynningu sem WOW air birti í gærkvöld kemur fram að staða flugfélagsins hafi versnað eftir skuldabréfaútboð félagsins í september. Í kjölfar skuldabréfaútboðsins hafi neikvæð umræða um fjárhagsstöðu félagsins haft neikvæðari áhrif á sölu, lausafjárstöðu og sjóðstreymi félagsins en gert hefði verið ráð fyrir. Ásamt því hefðu ytri aðstæður versnað m.a. vegna hækkandi eldsneytisverð. Í ljósi stöðunnar ákváðu stjórnendur WOW air að vinna að því að fá aukið fjármagn til rekstursins og því hafið viðræður við áhugasama fjárfesta.
Fyrir tveimur dögum var tilkynnt að Icelandair hefði fallið frá kaupum á WOW air en seinna sama dag var tilkynnt að bandaríski fjárfestingafélagið Indigo Partners ætlaði að fjárfesta í WOW air, Indigo er stórt félag á alþjóðlegum mælikvarða og talinn vera ákveðinn frumkvöðull í lágfargjaldaflugfélögum. Ekki er vitað hverjir eru skilmálar samkomulagsins en í tilkynningu félaganna kom fram að þau myndu reyna að ganga eins fljótt og auðið er frá viðskiptunum. Nú er meðal annars unnið að áreiðanleikakönnun vegna viðskiptanna.