Bill Franke, hinn 81 árs gamli stofnandi og æðsti stjórnandi Indigo Partners sem nú á í viðræðum við WOW air um mögulega fjárfestingu í félaginu, er staddur hér á landi og hefur fundað með Skúla Mogensen, eiganda og forstjóra WOW air í dag.
Frá þessu var greint á Vísi í dag.
Eins og greint hefur verið frá, þá er þess nú beðið að áreiðanleikakönnun ljúki, vegna mögulegrar fjárfestingar Indigo Partners í WOW air.
Icelandair féll frá því að kaupa WOW air eftir að áreiðanleikakönnun leiddi það í ljós og fjárþörf félagsins var álitin meiri en Icelandair hafði upphaflega gert ráð fyrir, og voru viðskiptin talin of áhættusöm á þeim forsendum. Auk þess náðu aðilar ekki saman, það er Skúli Mogensen eigandi WOW air og stjórn og stjórnendur Icelandair.
Fjárfestar virðast reikna með að fjárfesting Indigo Partners muni ganga eftir, en markaðsvirði Icelandair hefur hríðlækkað undanfarna viðskiptadaga, og lækkaði gengi bréfa félagsins um 3,22 prósent í dag, eftir um 20 prósent lækkun dagana á undan, eftir að tilkynningin um fyrirhugaða fjárfestingu Indigo og WOW var send út.
Miklar vonir eru bundnar við að fjárfestingin gangi eftir, enda mikið í húfi fyrir íslenskt efnahagslíf, þar sem WOW air hefur gengt lykilhlutverki í ferðaþjónustunni undanfarin ár og flutt mörg hundruð þúsund erlenda ferðamenn til landsins á ári hverju.
WOW air tapaði 33,6 milljónum dala, sem jafngildir um 4,2 milljarði króna, á fyrstu níu mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra nam tap félagsins 13,5 milljónum dala, jafnvirði tæplega 1,7 milljarða króna miðað við núverandi gengi. Þetta kemur fram í nýbirtu uppgjöri flugfélagsins.
Tekjur WOW air námu 501,4 milljónum dala, um 61,5 milljörðum króna, á fyrstu níu mánuðum ársins og jukust um 31 prósent frá sama tímabili í fyrra þegar þær voru 371,8 milljónir dala.
EBITDA félagsins fór úr því að vera jákvæð um 8,8 milljónir dollara fyrstu níu mánuði síðasta árs í að vera neikvæð um 18,9 milljónir nú, um 2,3 milljarða íslenskra króna.
Í tilkynningu segir Bill Franke að Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri WOW air, hafi náð miklum árangri við að byggja upp WOW air og að hann hlakki til samstarfs við starfsfólk félagsins, en viðskiptin eru þó með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og öðrum hefðbundnum fyrirvörum.
Indigo er hluthafi í nokkrum flugfélögum, meðal annars lággjaldafélaginu Wizz Air, sem hefur flogið milli Íslands og Evrópu undanfarin misseri, og hefur starfsemi félagsins verið vaxandi á Íslandi.