Nærri þrír af hverjum fjórum Íslendingum, 74 prósent, segja það réttlætanlegt að ákveðnar starfsstéttir beiti verkfalli á næstu misserum til að ýta eftir bættum starfskjörum. Rúmur meirihluti, 59 prósent, er tilbúinn að taka þátt í verkfalli til að bæta starfskjör sín og/eða annarra. Þetta kemur fram í niðurstöður nýrrar könnunar MMR, sem framkvæmd var dagana 15.-21. nóvember 2018.
Stjórnendur og embættismenn mótfallnir verkfallsaðgerðum
Stjórnendur og æðstu embættismenn reyndust líklegastir allra starfsstétta til að vera mótfallin verkfallsaðgerðum en einungis 37 prósent þeirra sögðu þau réttlætanleg í kjarabaráttu starfsstétta. Þá voru þeir tekjuhæstu 66 prósent ólíklegri en aðrir til að vera segja verkföll réttlætanleg. Námsmenn reyndust hins vegar líklegastir til að vera fylgjandi eða 84 prósent.
Stuðningsfólk Flokks fólksins, 97 prósent og Pírata, 96 prósent, reyndist líklegast til að segja verkföll réttlætanleg miðað við aðstæður á vinnumarkaði. Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokks 29 prósent og Miðflokks 61 prósent reyndust ólíklegust til að telja notkun verkfalla réttlætanlega í kjarabaráttu starfsstétta.
Stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins ólíklegast til að segjast tilbúið í verkfall
Stuðningsfólk Flokks fólksins 94 prósent var líklegast allra til að segjast tilbúið að taka þátt í verkfalli til að bæta starfskjör sín og/eða annarra en stuðningsfólk Sjálfstæðisflokks 22 prósent, Viðreisnar 44 prósent og Framsóknarflokks 49 prósent reyndist ólíklegast.
Þegar litið er til stöðu á vinnumarkaði voru námsmenn, 72 prósent, bændur, sjó-, iðn-, véla og verkafólk 66 prósent og þjónustu-, skrifstofufólk og tæknar, 64 prósent líklegastir allra til að segjast tilbúnir þátttöku í verkfallsaðgerðum en stjórnendur og æðstu embættismenn 21 prósent ólíklegastir.
Fjöldi þeirra sem kváðust reiðubúin að fara í verkfall til að bæta starfskjör sín og annarra fór minnkandi með aukinni menntun og heimilistekjum. Þá minnkuðu líkur á að svarendur voru tilbúnir að ganga til verkfalls samhliða aukinni menntun og tekjum.
Konur, landsbyggðin og unga fólkið jákvæðari gagnvart verkfalli
Jákvæðni gagnvart réttlætanleika verkfalla fór minnkandi með auknum aldri en 84 prósent svarenda á aldrinum 18-29 ára sagði aðstæður með þeim hætti að verkföll væru réttlætanleg, samanborið við 74 prósent þeirra 30-49 ára, 70 prósent þeirra 50-67 ára og 56 prósent þeirra 68 ára og eldri. Yngri svarendur voru líka líklegri til að segjast tilbúnir að taka þátt í verkfalli en þeir eldri .
Svarendur á landsbyggðinni, 77 prósent, reyndust 7 prósent líklegri en íbúar höfuðborgarsvæðisins til að segjast telja verkföll réttlætanleg. Þeir reyndust einnig 10 prósent líklegri til að segjast tilbúnir að taka þátt í verkfalli heldur en þeir búsettir á höfuðborgarsvæðinu
Konur reyndust talsvert líklegri en karlar að segja aðstæður á vinnumarkaði vera með þeim hætti að réttlætanlegt sé fyrir ákveðnir starfsstéttir að beita verkfalli á næstu misserum til að ýta á bætt starfskjör. Konur voru einnig líklegri til að segjast tilbúnar að fara í verkafall til bæta starfskjör sín .