Bókin Þjáningafrelsið – Óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna á Íslandi, í flokki fræðibóka og rita almenns efnis.
Blaðamaður Kjarnans, Bára Huld Beck, er höfundur bókarinnar ásamt Auði Jónsdóttur, rithöfundi og pistlahöfundi á Kjarnanum, og Steinunni Stefánsdóttur, þýðanda og fyrrverandi aðstoðarritstjóra Fréttablaðsins.
Þjáningarfrelsið fjallar um fjölmiðlaumhverfið á Íslandi og eymir skoðanir og hugleiðingar fimmtíu manns úr faginu um þetta mikilvæga málefni. Í bókinni er fortíðin skoðuð, samtímanum lýst, áskoranir greindar og varpað fram stórum spurningum sem verða vonandi efni í frjóa umræðu.
Þetta er fjórða bókin sem starfsmenn Kjarnans senda frá sér á skömmum tíma og þriðja rannsóknarblaðamennskubókin.
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, gaf út bókina Kaupthinking – Bankinn sem átti sig sjálfur í nóvember á þessu ári. Magnús Halldórsson og Þórður Snær Júlíusson gáfu út bókina Ísland ehf. – auðmenn og áhrif eftir hrun árið 2013.
Kjarninn miðlar ehf. gaf síðan út pistlasafn Hrafns Jónssonar, Útsýnið úr fílabeinsturninum - Saga af kjörtímabili fyrir tveimur árum.