Þroskaþjálfafélag Íslands segir Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, þingmann Miðflokksins, hafa ranglega titlað sig sem þroskaþjálfa á vef Alþingis. Félagið segist hafa staðfestingu frá Landlæknisembættinu þess efnis að Anna Kolbrún hafi hvorki hlotið menntun sem þroskaþjálfi né fengið starfsleyfi frá embættinu. Brotið hefur verið tilkynnt til Landlæknisembættisins.
„Þroskaþjálfafélagið harmar að starfsheitið þroskaþjálfi hafi verið misnotað með þessum hætti enda þótt starfsheitið sé ekki lengur að finna í æviágripi þingmannsins,“ segir í tilkynningu frá Þroskaþjálfafélagi Íslands.
Æviágripinu breytt í gær
Æviágripi Önnu Kolbrúnar á vef Alþingis var breytt í gær og starfsheitið þroskaþjálfi tekið út. Anna Kolbrún var í hópi þeirra sex þingmanna, sem náðust á upptöku, svívirða aðra þingmenn, einkum konur, og minnihlutahópa á barnum Klaustri 20. nóvember síðastliðinn.
Í fréttatilkynningu frá Þroskaþjálfafélaginu segir að í ljósi umræðna síðustu daga telji félagið mikilvægt að koma því á framfæri að Anna Kolbrún hafi ekki heimild til að titla sig þroskaþjálfa.
Félagið bendir á að starfsheitið sé lögverndað, þeir einir sem hlotið hafa til þess menntun og fengið starfsleyfi frá Landlæknisembættinu mega nota þetta starfsheiti. Þroskaþjálfafélagið hefur tilkynnt brotið til Landlæknaembættisins en brot gegn ákvæðum laga um heilbrigðisstarfsmenn og reglna sem settar eru á grundvelli þeirra varða sektum eða fangelsi allt að þremur árum.