Anna Kolbrún Árnadóttir, þingflokksformaður Miðflokksins og einn sexmenninganna sem var viðstödd niðrandi samræður um stjórnmálamenn og annað nafngreint fólk fyrir rúmum tveimur vikum, ætlar ekki að segja af sér. Samræðurnar náðust á upptöku. Þetta kemur fram í viðtali við hana í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir Anna Kolbrún að hún geri sér grein fyrir því að hafa látið samtöl mannanna við borðið viðgangast. „En á sama tíma geri ég mér fulla grein fyrir því að það er ekki á mína ábyrgð að stoppa það þegar drukknir menn tala. Ég hefði átt að fara fyrr en ég gerði. Það eru alveg ótrúlega mörg „Ég hefði“.
Hún segist ekki hafa verið drukkin heldur hafi hún drukkið tvo bjóra á löngum tíma þetta kvöld. Anna Kolbrún segist enn fremur hafa verið fyrst af þingmönnum Miðflokksins til að yfirgefa Klausturbarinn þetta kvöld. „Mér fannst of mikill ákafi í mönnum. Ég upplifði þetta þannig að ég hafi ítrekað reynt að skipta um umræðuefni, án árangurs. Ég reyndi að fara út í pælingar um að við værum öll ólík og nefndi þar að stelpur væru oftar með talnablindu og strákar oftar með lesblindu og því var snúið þannig af einum þeirra sem þarna var að þess vegna vissi kvenfólk ekki hvað það svæfi hjá mörgum. Ég benti líka á það í þessum samræðum, þegar verið var að ræða útlit Írisar Róbertsdóttur [bæjarstjóra í Vestmannaeyjum], hvort þeir myndu tala svona um karl en þá var þaggað niður í mér. Á ég að nenna að fara út í svona rökræður við fólk sem er undir áhrifum áfengis? Ég get ekki tekið ábyrgð á annarra manna orðum.“
Anna Kolbrún segist ekki hafa grátið jafnmikið á ævi sinni og síðustu daga og að hún hafi til að mynda brostið í frá á þingflokksformannafundi í gær.
Hún tekur undir skýringar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns flokks hennar, að umdeilt og ætlað selahljóð, sem hljómaði á upptökunni þegar þingmennirnir voru að ræða Freyju Haraldsdóttur, hefði verið umhverfishljóð. Fordómarnir liggi ekki hjá þeim heldur fréttamanninum sem skrifaði fyrstu fréttina um hljóðið.„Hverjum datt í hug að velta fyrir sér hugtakinu selur og tengja það við Freyju Haraldsdóttur? Hvaða fordómum býr sá yfir sem skrifaði fyrstu fréttina um það?“ spyr hún. Kom þetta hljóð úr barka einhvers ykkar þingmannanna? „Nei, ég veit ekki til þess.“