„Ég hef verið kölluð vanstillt, galin, vitfirrt. Geðheilsa mín og andlegt heilbrigði hefur verið dregið mjög í efa.“
Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, um þá umræðu sem stundum hefur geisað um hana á samfélagsmiðlum og víðar. Slíkar árásir gegn henni persónulega snúist oftar en ekki að ætluðu ástandi geðheilsu hennar og hugmyndaheimi.
Sólveig Anna er viðmælandi Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 sem frumsýndur verður á Hringbraut í kvöld klukkan 21:00. Þar ræðir hún meðal annars ítarlega um stöðu mála í kjaradeilum. Hægt er að sjá stiklu úr þætti kvöldsins hér að neðan.
Sólveig Anna segir að það hafi að vissu leyti komið á óvart hversu forhert fólk leyfði sér að vera þegar það talaði um kröfur verkalýðshreyfingarinnar. „Að þær væru kokkaðar upp af biluðu fólk. Leiðarahöfundar lýstu því yfir eins og ekkert væri að hér væri efnahagsleg niðursveifla hafin. Það var ekki talað um vægan samdrátt. Alls konar hlutir sem voru sagðir á mjög óábyrgan og ótrúlegan máta. Fyrir mig sem manneskju sem hef ekki haft aðgang að risastóru platformi þá fannst mér ótrúlegt hvað fólk sem hefur aðgang að stóru platformi leyfi sér að segja svona, eins og ekkert væri, en þurfti svo ekki að draga í land, biðjast afsökunar eða nokkurn skapaðan hlut.“
Sólveig Anna segist einmitt hafa verið „tögguð“ á samfélagsmiðlum og kölluð vanstillt strengjabrúða. „Það hefur stundum verið óþægilegt en ég hef lagt mig fram við að svara rösklega og hef ekki boðið hinn vangann. Ég kann það ekkert sérstaklega vel. Ég held að það hafi borið ágætis árangur því ég get ekki betur séð en að það hafi slankað í mesta hasarnum. Ég upplifði það allavega þannig. Minn lærdómur af því er þá sá að í stað þess að vera göfuglynd og bjóða hinn vangann þá borgar það sig fyrir vinnuaflið, fyrir talsmenn verka- og launafólks að svara bara af fullri hörku.“