„Í stað þess að íslenska þjóðin skiptist í fjármagnseigendur og arðrænt launafólk þá skiptist hún annars vegar í þá sem geta farið inn í og út úr gjaldmiðlinum og hina sem eru fastir.“
Þetta segir Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, í ítarlegri grein sem kemur til áskrifenda Vísbendingar á morgun. Í greininni, sem ber heitið Bylting í krónulandi!, fjallar Gylfi um undirstöður stéttabaráttunnar og hvernig hún birtist í raun og veru á Íslandi.
Að hans mati liggur munurinn á hópunum innan íslenska hagkerfisins í því, að sumir geta farið úr „krónulandi“ en aðrir ekki. „Í krónuhagkerfi þar sem fjármagnsflutningar á milli landa eru leyfðir er aðstöðumunur á milli launafólks og fjármagnseigenda. Dæmigerður launamaður á fasteign, skuldar fasteignalán og safnar réttindum í lífeyrissjóði. Ef hann nú býst við því að gengi krónunnar lækki þá áttar hann sig fljótt á a hann er fastur í krónuhagkerfinu og getur fátt gert til þess að verja sig. Fjármagnseigandi er í allt öðrum sporum. Hann getur millifært peningalegar eignir sínar á milli krónunnar og annarra gjaldmiðla. Þegar hann býst við að krónan falli þá kaupir hann gjaldeyri og þegar hann býst við því að hún hafi náð botni þá kemur hann aftur inn í krónuna og hagnast á gengisstyrkingu hennar. Hann getur jafnvel haft peningalegar eignir sínar í erlendum böndum eða skattaskjólum.
Af því sem hér hefur verið sagt má álykta að forsendur hefbundinnar stéttabaráttu séu ekki fyrir hendi hér á landi. Þjóðin skiptist ekki upp í fjármagnseigendur sem arðræna launafólk í Marxískum skilningi heldur skiptist þjóðin í tvo hópa, þá sem geta komið sér út úr krónunni á réttum tíma og hina sem eru fastir. Þetta hljómar ekki réttlátt en svona er það samt,“ segir Gylfi í greininni.
Í greininni segir jafnframt, að harðar kjaradeilur - með hótunum og stríðsyfirlýsingum - geti einar og sér valdið því að kjör almennings skerðist
„Ímyndum okkur nú að verkalýðsleiðtogar lýsi yfir stríði á hendur atvinnurekendum og fjármagnseigendum í því skyni að fá hærri kaupmátt á kostnað þeirra síðarnefndu. Þeir hóta verkföllum, t.d. skæruverkföllum sem geta lamað útflutning um tíma, og hóta því að sýna meiri hörku en áður hefur sést á vinnumarkaði. Fjármagnseigendum bregður í brún við að heyra þessi orð og eftir ekki langa umhugsun fara þeir inn í heimabanka sína og millifæra peninga af krónureikingum á gjaldeyrisreikninga. Viðskiptabankar reyna þá að kaupa gjaldeyri hver af öðrum og verð á gjaldeyri á millibankamarkaði hækkar, gengi krónunnar lækkar. Nú hækkar verð á öllum innflutningi mælt í krónum og verslanir munu fyrr en síðar hækka krónuverð á innfluttum vörum sínum. Kaupmáttur launafólks lækkar; það verður dýrara að kaupa bíla og heimilistæki og ferðalögum til útlanda fækkar.
Hagstofan mælir sömuleiðis meiri verðbólgu í kjölfar gengislækkunar krónunnar sem verður til þess að tölvukerfi viðskiptabankanna hækka höfuðstól verðtryggðra fasteignalána, nú skuldar launafólkið meira í krónum mælt. Verkalýðsleiðtogar krefjast þess þá að þak sé sett á verðtrygginu til þess að lánin hækki ekki en slíkt þak yrði til þess að eignir lífeyrissjóðanna sem felast í verðtryggðum útlánum rýrðust og hvati til sparnaðar minnkaði vegna neikvæðra raunvaxta. Vonandi segði ríkisstjórn nei við slíkum tillögum. Vextir á óverðtryggðum lánum myndu einnig hækka þótt engar vaxtahækkanir yrðu í Seðlabanka einfaldlega vegna þess að bankarnir byggjust við meiri verðbólgu.
Þannig geta hótanir verkalýðshreyfingar orðið til þess að skerða lífskjör launafólks áður en til kjarasamninga kemur. Tilraunir til stéttabaráttu, svo ekki sé talað um byltingu, leiða til falls krónunnar, minni kaupmáttar launa og aukinnar misskiptingar eigna. Þetta er hið járnharða lögmál samtímans.“
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.