Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, hafnar því í yfirlýsingu að starfsmenn Alþingis séu hluta af því sem Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, kallaði mjög sérstakan kúltur í viðtali á Bylgjunni í gærmorgun.
Helgi mótmælir ummælum hennar og því að starfsmenn Alþingis séu á einn eða annan hátt dregnir inn í þá umræðu sem orðið hefur í fjölmiðlum um samtöl nokkurra þingmanna um samþingsmenn sína og fleiri á veitingahúsi í nágrenni þingsins.
„Þegar starfsmenn hefja störf á Alþingi er brýnt fyrir þeim að sýna háttvísi í hvívetna og koma fram gagnvart þingmönnum og öðrum starfsmönnum af virðingu og nærgætni í orðum og allri framkomu. Á þetta er jafnframt minnt á starfsmannafundum skrifstofunnar. Ég man ekki til þess að undan starfsmönnum hafi verið kvartað að þessu leyti. Starfsmenn skrifstofu Alþingis leggja metnað sinn í að sinna störfum sínum af einlægni og fagmennsku.
Ég harma þessi ummæli þingmannsins, því að þau eiga ekki við rök að styðjast, og vona að þau séu mælt í ógætni, enda fylgdu með þakklætis- og hrósyrði um starfsmennina sem þakka ber.“