Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði í viðtali við fréttir Stöðvar 2 í kvöld, að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefði sagt á fundi með henni að fundurinn afdrifaríki, á Klaustur bar 20. nóvember síðastliðinn, hefði verið að frumkvæði þingmanna Flokks fólksins, Karls Gauta Hjaltasonar og Ólafs Ísleifssonar.
Eins og greint hefur verið frá með ítarlegum hætti, þá sátu fundinn Sigmundur Davíð, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson og Anna Kolbrún Árnadóttir, auk Karls Gauta og Ólafs.
Karl Gauti og Ólafur hafa verið reknir úr Flokki fólksins og eru Bergþór og Gunnar Bragi nú í leyfi frá störfum sínum, en þeir hafa báðir beðist afsökunr á framferði sínu og niðrandi ummælum. Þeir ætla ekki að segja af sér, en Gunnar Bragi hefur svarað því til að það sé engin ástæða til þess.
Á fundinum ræddu þingmennirnir með niðrandi hætti um konur, fatlaða og marga samstarfsmenn á þingi, og hefur Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, meðal annars sagt að Miðflokksmenn séu ofbeldismenn, en á fundinum sem náðist á upptöku er meðal annars fjallað með niðrandi hætti um hana og kallaði Gunnar Bragi hana meðal annars „helvítis tík“.
Lilja sagðist hafa bognað, en hún ætli ekki að brotna útaf þessu, og skömmi hafi verið skilað til þeirra sem hana eiga, sem eru þingmennirnir sjálfir sem ræddu með niðrandi hætti um hana og fleiri.
Mikill titringur hefur verið á Alþingi vegna málsins, en margir þingmenn, ekki síst konur, gengu út þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók til máls um fjárlögin í dag.