„Ég er fötluð, hinsegin kona og mér blöskraði,“ segir uppljóstrarinn sem tók upp þingmennina á Klaustur bar. Uppljóstrarinn heitir Bára Halldórsdóttir en hún var fyrir tilviljun stödd á Klaustur bar þann 20. nóvember þegar hún varð vitni að samræðum þingmannanna sex. Hún stígur fram og segir frá atburðarásinni í viðtali við Stundina í dag.
„Mér bara brá svo þegar ég heyrði hvernig þingmennirnir töluðu. Satt best að segja trúði ég ekki mínum eigin skilningarvitum. Svo ég byrjaði bara að taka upp, án þess að hugsa það neitt lengra. En því meira sem ég hlustaði, því reiðari varð ég, því þarna voru saman komnir valdamiklir menn að spúa hatri yfir minnihlutahópa á almannavettvangi. Ég held að það hafi verið rétt að upplýsa almenning um það sem þarna fór fram og eftir á að hyggja er ég stolt af því,“ segir Bára.
Forseti Alþingis hefur beðið fatlaða, hinsegin fólk og konur afsökunar á ummælum þingmanna en Bára tilheyrir öllum þremur hópunum.
Er þetta í alvörunni eðlileg hegðun af hálfu þjóðkjörinna fulltrúa, þingmannanna okkar?
Bára var aðeins búin hafa kveikt á upptökunni í smá stund þegar þingmennirnir fóru að tala um að „ríða einhverju skrokkum“. Hún segir þau hafa verið stödd í opnu rými, á stað sem er opinn almenning og að þau hafi talað svo hátt að það heyrðist um allt. „Ég hugsaði með mér: Er þetta í alvörunni eðlileg hegðun af hálfu þjóðkjörinna fulltrúa, þingmannanna okkar? Er þetta ekki akkúrat sú orðræða sem við erum nýbúin að vera að berjast gegn með MeToo og svo framvegis, og er bara í lagi að valdamiklir menn sitji og tali svona, hátt og skýrt á kaffihúsi eins og ekkert sé?“
„Helst langaði mig bara að standa upp og spyrja: Heyriði ekki í sjálfum ykkur? Vitiði ekki að það er fleira fólk hérna inni?“ Bára spilaði upptökuna fyrir konuna sína þegar hún kom heim en hún var orðlaus. „Það sem okkur fannst svo ótrúlegt er að þau skyldu ná að pakka öllu þessu hatri og ógeði inn á aðeins örfáar klukkustundir. Og á maður að trúa því að þetta hafi verið algert undantekningartilvik? Að venjulega tali þau ekki svona? Að stefnan þeirra og pólitíkin þeirra sé ótengd þessum viðhorfum sem birtust þarna á barnum?“
Ánægð með viðbrögð almennings, fjölmiðla og stjórnmálamanna
Bára segist vera ánægð með viðbrögð almennings, fjölmiðla og stjórnmálamanna við Klaustursupptökunum. „Fólk tók þessu alvarlega og sá þarna kýli sem það vildi stinga á. Þingmennirnir sem eiga í hlut hafa reyndar dregið málið á langinn með því að afneita vandanum, þræta og drepa málinu á dreif í stað þess að vera partur af lausninni. En það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með viðbrögðunum. Siðanefnd Alþingis er kölluð til, fólk er rekið úr flokki og aðrir fara í frí, forseti Alþingis biðst afsökunar, alvöru umræður eiga sér stað og ég fer bara að hallast að því að þetta hafi verið dálítið þarft.“
Hún segist vera stolt af því að hafa sett þessa atburðarás af stað og stolt af þingmönnum, almenningi og baráttufólki sem hefur gripið tækifærið til að breyta umræðunni. „Fólkið sem sat þarna á Klaustri er barn síns tíma að miklu leyti, en engu að síður þýðir þessi uppákoma og umræðan í kringum hana að næst þegar menn tala svona þá er líklegra en áður að einhver segi stopp.“
Sjaldan séð þetta skilningsleysi jafn skýrt
Í viðtalinu við Stundina segir Bára einnig frá því hvernig það er að vera öryrki á Íslandi, tilheyra tveimur minnihlutahópum og mæta stöðugt skilningsleysi valdamikilla afla í samfélaginu. Hún segir að sjaldan hafi þetta skilningsleysi birst sér jafn skýrt og þegar hún hlustaði á málflutning þingmannanna á Klaustri. Bára er öryrki en hún glímir við gigtarsjúkdóm sem leggst á æðakerfi líkamans. Undanfarin ár hefur hún sinnt fræðslu og réttindabaráttu fyrir langveika, fátæka og fatlaða í gegnum félagasamtökin Tabú og Pepp.