Sveinn Margeirsson fyrrverandi forstjóri Matís hafnar því að upplýsingagjöf til stjórnar Matís hafi verið léleg af sinni hálfu. Frá þessu greinir hann í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni í dag. Hann segir að þeir sem þekkja til hans viti að hann leggi mikið upp úr hagnýtingu upplýsinga. Doktorsritgerð hans hafi snúist um hagnýtingu upplýsinga í virðiskeðju sjávarafurða. „Við hjónin notuðum opinberar upplýsingar til að fletta ofan af Exeter Holdings málinu árið 2009. Samstarf Matís við Advania um þróun Blockchain lausnar í því augnamiði að miðla upplýsingum bænda um lambakjöt til neytenda var mín hugmynd. Þannig mætti áfram telja,“ segir hann á Facebook.
Sveinn lét af störfum eftir átta ára starf síðastliðinn fimmtudag. Sjöfn Sigurgísladóttir formaður stjórnar Matís staðfesti í samtali við Kjarnann að honum hefði verið sagt upp og sagði að samið hefði verið um starfslok.
Í stöðuuppfærslu sinni segist hann telja sig knúinn til að leiðrétta frétt Bylgjunnar sem birtist síðastliðinn föstudag þar sem fjallað var um uppsögn hans. Í fréttinni segir Sjöfn að trúnaðarbrestur hafi orðið á milli stjórnarinnar og Sveins sem rekja megi til lélegrar upplýsingagjafar. Hún segir að Sveini hafi verið sagt upp símleiðis því það hafi þurft að ganga frá uppsögn hans strax og hann hafi ekki verið á leiðinni til landsins.
Sveinn segir aftur á móti að uppsögnin hafi borist í tölvupósti en ekki símleiðis. Hann segist hafa verið vegna vinnu minnar á fundi SCAR nefndarinnar á miðvikudag, farið þaðan á loftslagsráðstefnuna COP24 og komið heim til Íslands á föstudagskvöld.
„Síðustu ár hefur verið lögð áhersla á hagnýtingu nútíma upplýsingakerfa í rekstri Matís, sem ávallt hefur farið án teljandi athugasemda í gegnum endurskoðun Ríkisendurskoðunar og endurskoðun evrópskra samkeppnissjóða. Slíkum árangri er einungis hægt að ná með því að hafa skýra yfirsýn yfir reksturinn. Þeirri yfirsýn hefur verið miðlað eftir fremsta megni til stjórnar síðastliðna mánuði og hafa starfsmenn Matís lagt mikið á sig við þá vinnu. Brugðist hefur verið við hverri þeirri fyrirspurn sem stjórnarformaður og aðrir stjórnarmenn hafa komið með, auk hefðbundinnar upplýsingagjafar um rekstur félagsins,“ segir Sveinn.
Hann tekur það fram að hann hafi ekki hugsað sér að elta ólar við einstök ummæli Sjafnar Sigurgísladóttur varðandi ákvörðun stjórnar Matís um að nýta uppsagnarákvæði ráðningarsamnings hans. Ákvörðunin sé tekin og skynsamlegast að horfa til framtíðar.
„Mig langar til að nota tækifærið og þakka öllum samstarfsaðilum Matís í gegnum tíðina, sem og starfsfólki Matís, fyrir frábært samstarf. Markmið Matís eru skýr, lykilgildi félagsins eru heilindi og þau hef ég ávallt kappkostað að standa fyrir sem forstjóri. Gildir þar einu hvort um hefur verið að ræða framkvæmd vísindarannsókna, ráðstöfun hugverka og sprotafyrirtækja eða hver tengsl samstarfsaðila hafa verið við félagið. Matís býr yfir mannauði á heimsmælikvarða eins og árangur í alþjóðlegum samkeppnissjóðum vitnar til um, en hlutfall alþjóðlegrar fjármögnunar er í dag um þriðjungur af heildartekjum. Alþjóðlegar tekjur uxu mikið á árunum 2010-2016, í kjölfar stefnumörkunar um alþjóðlega samkeppnishæfni félagsins. Ef starfsmenn fá áfram tækifæri til að starfa af þeim þrótti og heilindum sem þeir hafa gert, verður Matís áfram í fararbroddi í nýsköpun í lífhagkerfinu, Íslendingum öllum til heilla,“ segir Sveinn.
Í fréttum á Bylgjunni sl. föstudag var fjallað um uppsögn...
Posted by Sveinn Margeirsson on Monday, December 10, 2018