Líklegt er að Indigo Partners muni beita sér með þeim hætti, að WOW air leggi niður kostnaðarsöm flug og hagræði mikið í rekstri, meðal annars með því að vera með starfsfólk sem er með lág laun.
Þá er spurning hvort WOW air verði í reynd eins konar sýndarflugfélag.
Þetta segir Samuel Engel, pistlahöfundur Forbes á sviði flugmála, þar sem hann veltir fyrir sér mögulegri fjárfestingu Indigo í WOW air, en viðræður um þau standa enn yfir og ekki verið til lykta leiddar.
Í pistlinum nefndir hann að sýnin sem Bill Franke, hinn 81 árs gamli stofnandi og helsti eigandi Indigo Partners, séu sú að skera niður kostnað eins og hægt er, vera með hagkvæman flugvélaflota, og vera síðan með góða samlegð í rekstrinum. Þetta hafi verið gert með Wizz Air og Frontier, með góðum árangri.
Með sýndaflugfélagi segir hann að átt sé við flugfélag sem selji miða í gegnum gott vörumerki, en síðan séu önnur félög sem fljúgi flugfélugunum.
WOW air tapaði 33,6 milljónum dala, sem jafngildir um 4,2 milljarði króna, á fyrstu níu mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra nam tap félagsins 13,5 milljónum dala, jafnvirði tæplega 1,7 milljarða króna miðað við núverandi gengi. Þetta kemur fram í nýbirtu uppgjöri flugfélagsins.
Tekjur WOW air námu 501,4 milljónum dala, um 61,5 milljörðum króna, á fyrstu níu mánuðum ársins og jukust um 31 prósent frá sama tímabili í fyrra þegar þær voru 371,8 milljónir dala.
EBITDA félagsins fór úr því að vera jákvæð um 8,8 milljónir dollara fyrstu níu mánuði síðasta árs í að vera neikvæð um 18,9 milljónir nú, um 2,3 milljarða íslenskra króna.
Eins og komið hefur fram, þá féll Icelandair frá því að kaupa WOW air, og hófust fljótlega viðræður milli WOW air og Indigo Partners. Ekkert hefur verið gefið upp um viðræðurnar, annað en það sem komið hefur fram í stuttum yfirlýsingum, um að þær hafi gengið vel.
Indigo er risi í flugheiminum, og er með höfuðstöðvar í Arizona í Bandaríkjunum.