Verðmæti sjávarafla íslenskra skipa í ágúst 2018 nam tæpum 11,9 milljörðum króna sem er jafn mikið og í ágúst 2017. Verðmæti botnfiskaflans nam rúmum 6,9 milljörðum og jókst um tæp þrjú prósent. Aflaverðmæti þorsks var tæpir fjórir milljarðar sem er á pari við ágúst 2017. Verðmæti uppsjávarafla nam tæpum 3,2 milljörðum og dróst saman um 13,6 prósent samanborið við ágúst 2017. Verðmæti flatfisktegunda nam 1,3 milljörðum og verðmæti skel- og krabbadýraafla 385 milljónum. Frá þessu er greint á vef Hagstofunnar.
Á tólf mánaða tímabili frá september 2017 til ágúst 2018 jókst aflaverðmæti um þrettán prósent miðað við sama tímabil árið áður. Aflaverðmætið úr sjó nam rúmum 125 milljörðum króna. Verðmæti uppsjávarafla jókst um 17 prósent á milli tímabila og munar þar mest um ýsuna og karfa. Verðmæti karfa jókst um tæp 21,5 prósent.
Um 70 prósent af heildarverðmætunum í sjávarútvegi má rekja til starfsemi á landsbyggðinni, samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands um verðmæti afla eftir staðsetningu verkunarstaðar.