„Fram kemur í hvítbókinni að meðalvextir útlána íslensku bankanna voru í fyrra 5,8% en meðalvextir skulda bankanna 3,2%. Á því ári var því 2,6 prósentustiga munur á meðaltalsvöxtum vaxtaberandi eigna og skulda íslenskra banka. M.ö.o var álagning íslensku bankanna 45% í fyrra. Háir vextir útlána bankanna skýrast því að mjög stórum hluta af þessari háu álagningu þeirra.“
Þetta segir dr. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í grein í Fréttablaðinu í dag, þar sem hann fjallar um hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, sem kynnt var á dögunum. Yfirskrift greinarinnar er; Ríkið getur lækkað vexti.
Hann segir í greininni að það sé íslenska ríkisins að hagræða í bankakerfinu, þar sem það er eigandi þess að stærstum hluta. Með því móti megi bæta kjör, stuðla að meiri skilvirkni og auka verðmætasköpun í samfélaginu.
„Í hvítbókinni er rætt um hvað skýri þessa álagningu íslensku bankanna. Samkvæmt niðurstöðunum skýrir rekstrarkostnaður, sem að helmingi er launakostnaður, álagninguna að mestu. Auk þess skýra sértækir skattar og töluvert miklar eiginfjárkröfur álagninguna.
Greiningin er áhugaverð því hún sýnir hvaða leiðir megi fara til að lækka vexti hér á landi og bæta samkeppnishæfni íslensks efnahagslífs. Íslensku bankarnir eru að mestu í eigu ríkisins auk þess sem ríkið mótar laga- og reglugerðarumgjörð þeirra. Það er ríkisins, sem eiganda bankanna, að beita sér fyrir því að hagræða og auka skilvirkni í bankaþjónustu og skapa þannig skilyrði fyrir lægri innlendum vöxtum til hagsbóta fyrir íslensk fyrirtæki og heimili,“ segir Sigurður.
Íslenska ríkið er 100 prósent eigandi Íslandsbanka og ríflega 98 prósent eigandi Landsbankans. Auk þess á ríkið Íbúðalánasjóð, og er þannig eigandi og ábyrgðaraðili um 70 til 80 prósent af fjármálakerfi landsins.
Samanlagt eigið fé Íslandsbanka og Landsbankans er um 450 milljarðar króna, og heildareignir bankanna, aðallega útlán, upp á ríflega tvö þúsund milljarða.