Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna Samherjamálsins, þar sem hann rekur hvernig það kom til, að hann hafi látið kanna möguleikann á því að ljúka málinu með sátt.
Hann segist hafa stuðst við lögfræðiálit Gizurar Bergsteinssonar hrl. þar sem fjallað er um lagaheimildir Seðlabankans til að ljúka málum.
Hann segist hafa hagað málinu í samræmi við lög, og að honum hafi verið skylt að vísa málum til sérstaks saksóknara.
Eins og kunnugt er, þá er Samherjamálum lokið en ekki var fallist á málatilbúnað Seðlabankans fyrir dómstólum, og er Samherji nú að undirbúa skaðabótamál á hendur bankanum.
Yfirlýsing Más Guðmundssonar er eftirfarandi: „Í viðtölum við fjölmiðla sunnudaginn 25. nóvember sl. kom fram í máli mínu að ég hefði látið kanna möguleikann á því að fara sáttaleið í svokölluðu Samherjamáli í stað þess að kæra málið til embættis sérstaks saksóknara eins og gert var hinn 10. apríl 2013. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf., lét hafa eftir sér í fjölmiðlum að hann efaðist um að þetta væri satt. Það er það eigi að síður og er það stutt með því sem hér fer á eftir. Þar er að hluta til stuðst við minni, m.a. þar sem ég tek ekki upp mín símtöl enda er það ólöglegt án vitundar gagnaðila, og tíma tók að draga saman og staðreyna upplýsingar.
Sumarið 2012 átti ég samtöl í síma við Þorstein Má um stöðuna í Samherjamálinu. Þar barst talið að þeim möguleika að málið yrði sett í sáttaferli sem myndi m.a. fela í sér einhverjar þær breytingar á fyrirkomulagi og verklagi hjá Samherja sem sköpuðu traust á því að gjaldeyrisskil fyrirtækisins væru í lagi. Í framhaldinu bað ég framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlitsins að kanna þennan möguleika. Hún aflaði lögfræðiálits frá Gizuri Bergsteinssyni hæstaréttarlögmanni, sem dagsett er 29. ágúst 2012, um lagaheimildir Seðlabankans til þess að ljúka málum er varða brot á lögum um gjaldeyrismál með sátt. Í niðurstöðum álitsins segir: Seðlabanka Íslands er heimilt að ljúka máli með sátt hafi málsaðili gerst brotlegur við ákvæði laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál eða reglur settar á grundvelli þeirra. Þessi heimild er bundin við að ekki sé um að ræða meiri háttar brot, en bankanum ber að vísa málum vegna slíkra brota til lögreglu.
Á þessum tíma var frumrannsókn Seðlabankans á Samherjamálinu ekki lokið. Þegar leið að því um veturinn fór ég aftur að biðja um athugun á því að ljúka máli Samherja með sátt. Það varð til þess að ég átti fund með Gizuri Bergsteinssyni hrl. og framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlitsins til að fara yfir spurninguna á ný með tilliti til þess lögfræðiálits sem lá fyrir frá því í ágúst 2012 og niðurstaðna frumrannsóknarinnar. Sá fundur var haldinn eftir áramótin 2012/13, að því mig minnir í mars eða snemma í apríl. Eftir fundinn var ljóst að Seðlabankinn hafði ekki heimildir til að setja málið í sáttaferli eins og það lá fyrir enda taldist málið þá vera meiriháttar í skilningi laga um gjaldeyrismál. Þvert á móti var það beinlínis embættisskylda mín eins og lögin voru að senda málið áfram til sérstaks saksóknara. Ég tilkynnti Þorsteini Má í símtali þá niðurstöðu en við höfðum verið í símasambandi um stöðu málsins á fyrstu mánuðum ársins 2013.“