Til sjávar og sveita er fyrsti viðskiptahraðallinn á Íslandi sem einblínir á nýjar lausnir og sjálfbæra verðmætasköpun í landbúnaði og sjávarútvegi, en honum var ýtt úr vör í morgun. Icelandic Startups hefur í samstarfi við Íslenska Sjávarklasann komið á fót Til sjávar og sveita með fulltingi IKEA á Íslandi, Matarauðs Íslands, HB Granda og Landbúnaðarklasans.
Opnunarviðburður hraðalsins fór fram á veitingastað IKEA í Kauptúni en Kristján Þór Júlíusson, Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra opnaði formlega fyrir umsóknir.
„Það eru í raun lítil takmörk fyrir því hvað hægt er að ná fram ef við búum svo um hnútana að fólk með góðar hugmyndir, frumkvöðlar, fái að njóta sín,“ sagði Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, en hann og Þór Sigfússon, stofnandi Sjávarklasans, fluttu erindi við opnunina.
Auk þess sem Ingi Björn Sigurðsson, verkefnastjóri hjá Icelandic Startups sagði frá fyrirkomulagi hraðalsins.
Loks kynntu frumkvöðlarnir frá Jurt Hydroponics fyrstu vöru sína, Nordic Wasabi, sem er hreint wasabi ræktað á sjálfbæran máta á Íslandi.
Í gegnum þessa bakhjarla fá fyrirtækin aðgang að tengslaneti og fagþekkingu sem á engan sinn líka á Íslandi. Ætlunin er að hraðallinn verði uppspretta nýrra vara og þjónustu og varpi ljósi á þau tækifæri sem felast í sjálfbærri nýtingu auðlinda á Íslandi. Viðskiptaheimurinn er að taka örum breytingum en vaxtartækifæri íslensks atvinnulífs felast í auðlindum og hugviti með sjálfbærni að leiðarljósi. Markmiðið með hraðlinum er þannig að aðstoða frumkvöðla við að byggja upp næstu kynslóð fyrirtækja í fremsta flokki landbúnaðar og sjávarútvegs, að því er fram kemur í tilkynningu.
Til sjávar og sveita hefst í mars á næsta ári og stendur yfir í níu vikur. Allt að tíu teymi verða valin og fá aðgang að fullbúinni vinnuaðstöðu á tímabilinu auk stuðnings og sérþekkingar til að vinna að markmiðum sínum. Þau fá jafnframt ráðgjöf og aðstoð frá reyndum sérfræðingum, fjárfestum og frumkvöðlum úr atvinnulífinu meðan á hraðlinum stendur. Að lokum verður haldinn Uppskerudagur þar sem teymin kynna hugmyndir sínar fyrir fjárfestum og öðru áhrifafólki úr atvinnulífinu.