Vinnumálastofnun hefur ekki fengið jafn fjölmennar hópuppsagnir og nú eiga í hlut í flugþjónustunni, síðan 2009 þegar um 600 manns var sagt upp í tveimur hópuppsögnum hjá Ístaki hf.
Þetta kemur fram í svari Vinnumálastofnunar við fyrirspurn Kjarnans. Samkvæmt stofnuninni tekur hún saman á fyrsta degi nýs mánaðar, þær fjöldauppsagnir sem þeim hefur borist mánuðinn á undan og í hvaða greinum.
Í fyrradag var 111 fastráðnum starfsmönnum WOW air sagt upp störfum og ná uppsagnir starfsmanna þvert á fyrirtækið. Að sama skapi munu samningar við verktaka og tímabundna starfsmenn ekki verða endurnýjaðir að svo stöddu. Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að vonir standi til að stór hluti þeirra sem fengu uppsögn í fyrradag fái tækifæri hjá félaginu að nýju.
Hópuppsagnir eru skilgreindar í lögum sem uppsagnir atvinnurekanda á fastráðnum starfsmönnum af ástæðum sem ekki tengjast hverjum þeirra um sig, þegar fjöldi starfsmanna sem sagt er upp á þrjátíu daga tímabili er:
- að minnsta kosti 10 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa fleiri en 20 og færri en 100 starfsmenn í vinnu,
- að minnsta kosti 10 prósent starfsmanna í fyrirtækjum sem venjulega hafa hið minnsta 100 starfsmenn, en færri en 300 starfsmenn í vinnu og
- að minnsta kosti 30 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa 300 starfsmenn eða fleiri í vinnu.
Við útreikning á fjölda þeirra sem sagt er upp skal litið á uppsögn ráðningarsamnings einstakra starfsmanna sem jafngilda hópuppsögnum að því tilskildu að um minnst fimm uppsagnir sé að ræða.
Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air sagði fyrradag vera erfiðasta daginn í sögu WOW air. „Við erum með frábæran hóp af fólki sem hefur lagt hart að sér að gera WOW air að veruleika og það er því sorglegt að neyðast til að fara í þennan niðurskurð. Ég vildi óska þess að það væri til önnur leið en staðreyndin er sú að við verðum að snúa við rekstrinum og koma honum aftur í gott horf áður en við getum hafið uppbygginguna að nýju,“ sagði Skúli.
Eftir þessar rekstrarbreytingar munu áfram starfa hátt í þúsund manns hjá félaginu.