Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að Klaustursmálið hafi verið áfall, og að það hafi haft verulega mikil áhrif á Alþingi.
Þetta kom fram í viðtali við Katrínu á RÚV. „Það hefur óneitanlega gert það og það liggur fyrir að þetta hefur haft veruleg áhrif á okkur öll sem hér störfum af því að það skiptir auðvitað mjög miklu máli að við sem hér störfum, þó okkur greini á um hluti, að við séum sammála um það að við getum borið virðingu hvert fyrir öðru í okkar störfum,“ sagði Katrín.
Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson hafa verið reknir úr Flokki fólksins, vegna Klaustursmálsins, og Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, Miðflokki, eru nú í leyfi. Þeir hafa báðir beðist afsökunar á framferði sínu á, en ætla ekki að segja af sér þingmennsku, frekar en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Anna Kolbrún Árnadóttir.
Í samtali þeirra á milli, 20. nóvember á Klaustur bar, ræddu þingmennirnir með niðrandi hætti um margt samstarfsfólk á Alþingi.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur lýst framferði þingmanna Miðflokksins sem hreinu ofbeldi, og hefur sagt það með öllu óafsakanlegt.
Málið hefur haft miklar afleiðingar fyrir Miðflokkinn, sé horft til könnunar MMR.
Miðflokkurinn mældist með 5,9 prósent fylgi í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 5. til 11. desember en flokkurinn mældist með 13,1 prósent í þeirri síðustu sem birt var 21. nóvember síðastliðinn.
Framsókn eykur við sig fylgi en flokkurinn var með 7,5 prósent fylgi í síðustu könnun en er nú með 12,5 prósent fylgi.
Sjálfstæðisflokkurinn mældist með stuðning 22,1 prósent landsmanna í könnuninni en fylgi flokksins jókst um eitt prósentustig frá síðustu mælingu.
Samfylkingin mældist með 16,9 prósent fylgi, sem er svipað fylgi og flokkurinn mældist með í síðustu könnun. Píratar bættu rúmlega þremur prósentustigum við fylgi sitt frá síðustu könnun og mældust með 14,4 prósent fylgi. Þá bættu Vinstri græn rúmlega tveimur og hálfu prósentustigi við fylgi sitt.