Miðflokkurinn mældist með 5,9 prósent fylgi í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 5. til 11. desember en flokkurinn mældist með 13,1 prósent í þeirri síðustu sem birt var 21. nóvember síðastliðinn. Framsókn eykur við sig fylgi en flokkurinn var með 7,5 prósent fylgi í síðustu könnun en er nú með 12,5 prósent fylgi.
Sjálfstæðisflokkurinn mældist með stuðning 22,1 prósent landsmanna í könnuninni en fylgi flokksins jókst um eitt prósentustig frá síðustu mælingu.
Samfylkingin mældist með 16,9 prósent fylgi, sem er svipað fylgi og flokkurinn mældist með í síðustu könnun. Píratar bættu rúmlega þremur prósentustigum við fylgi sitt frá síðustu könnun og mældust með 14,4 prósent fylgi. Þá bættu Vinstri græn rúmlega tveimur og hálfu prósentustigi við fylgi sitt.
Stuðningur við ríkisstjórnina jókst lítillega en 40,3 prósent sögðust styðja ríkisstjórnina nú samanborið við 39,9 prósent í síðustu mælingu.
Heildarfjöldi svarenda var 975 einstaklingar, 18 ára og eldri.