Blikur eru á loft í ferðaþjónustu hér á landi, og bendir margt til þess að boðaður niðurskurður WOW air í flugframboði til og frá Íslandi, muni hafa mikil áhrif á fjölda heimsókna ferðamanna til landsins.
Í samtali við Morgunblaðið, segir Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá Landsbankanum, að erlendum ferðamönnum „gæti fækkað“ um á þriðja hundrað þúsund vegna niðurskurðar WOW air.
Haft var eftir Skúla Mogensen, forstjóra WOW air, þegar tilkynnt var um hópuppsanir á samtals um 350 starfsmönnum og mikinn samdrátt í flugleiðum, að farþegum mundi fækka úr 3,5 milljónum í ár í 2,1 milljón á næsta ári.
„Sveinn segir að miðað við að WOW air hafi flutt 600-700 þúsund þeirra 2,3 millj. erlendu ferðamanna sem koma til landsins í ár megi áætla að boðaður niðurskurður WOW air leiði til þess að erlendum ferðamönnum fækki um 180-280 þúsund á næsta ári, eða um 6-12%,“ segir í frétt Morgunblaðsins.
Icelandair hefur á móti boðað aukið framboð flugleiða, og hyggst efla starfsemina enn frekar á næsta ári.
Ennþá eru í gangi viðræður milli WOW air og Indigo Partners, um fjárfestingu bandaríska félagsins í WOW air, en því ferli er ekki lokið enn. Flækjustig er þó nokkuð, þar sem semja þarf um skuldir félagsins á nýjan leik, við kröfuhafa, og leysa úr ýmsum lausum endum. Fjárfestingin gæti orðið upp á 75 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 9,3 milljörðum króna.
WOW air tapaði alls 33,6 milljónum dala, sem jafngildir um 4,2 milljarði króna, á fyrstu níu mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra nam tap félagsins 13,5 milljónum dala, jafnvirði tæplega 1,7 milljarða króna miðað við núverandi gengi. EBITDA félagsins fór úr því að vera jákvæð um 8,8 milljónir dala fyrstu níu mánuði síðasta árs í að vera neikvæð um 18,9 milljónir dala nú, sem er um 2,3 milljarða íslenskra króna.