Bára Halldórsdóttir, sem tók upp samtöl sex þingmanna á Klausturbar 20. nóvember síðastliðinn, mun koma fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í dag klukkan korter yfir þrjú.
Samstöðufundur mun fara fram samtímis fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur. Á Facebook-síðunni „Takk Bára“, sem telur nú 17.064 meðlimi, segir að atburðurinn sé fyrst og fremst til að „veita Báru þann stuðning sem hún þarfnast hverju sinni“. Fólk er sérstaklega beðið um að geyma hvers kyns mótmælaaðgerðir þar til að fundurinn er yfirstaðinn, að mæta ekki í gulum vestum og að Báru verði gefið rými.
Auður Tinna Aðalbjarnardóttir og Ragnar Aðalsteinsson sem bæði starfa á lögmannsstofunni Rétti, hafa tekið að sér mál Báru. Reimar Pétursson er lögmaður þingmanna Miðflokksins.
Í bréfi frá héraðsdómi sem Báru barst, og hún birti á samfélagsmiðlum, sagði að beiðnin verði „ekki skilin öðruvísi en svo að dómsmál kunni að verða höfðað á hendur þér í kjölfar umbeðinnar gagnaöflunar.“
Fengu sér lögmann og höfðu samband við Persónuvernd
Greint var frá því á RÚV í síðastliðinn mánudag að þeir fjórir þingmenn Miðflokksins sem voru teknir upp við að láta niðrandi og niðurlægjandi ummæli falla um fjölda fólks á Klausturbar 20. nóvember hefðu ráðið sér lögmann. Sá hefði haft samband við Persónuvernd og krafist þess að stofnunin rannsakaði hver hefði staðið að því að taka upp samtöl þingmannanna og komið upptökunni til fjölmiðla.
Þingmennirnir fjórir eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður hans, Anna Kolbrún Árnadóttir, ritari flokksins, og Bergþór Ólason, þingmaður.
Um sólarhring eftir að beiðni lögmannsins barst Persónuvernd gaf Bára Halldórsdóttir sig fram í viðtali við Stundina og opinberaði að hún væri sá einstaklingur sem hefði tekið upp samtölin.