Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og allir varaforsetar úr hópi þingmanna, hafa sagt sig frá umfjöllun um Klaustursmálið svonefnda, vegna vanhæfis. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alþingi.
Varaforsetar eru Guðjón Brjánsson, Brynjar Níelsson, Þorsteinn Sæmundsson, Þórunn Egilsdóttir, Jón Þór Ólafsson og Bryndís Haraldsdóttir.
Forsætisnefnd hefur haft til umfjöllunar erindi átta þingmanna þar sem þess er að óskað, að það verði kannað hvort sex þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins, sem áttu fund á Klaustur bar 20. nóvember síðastliðinn, hafi brotið gegn siðareglum með ummælum sínum um ýmsa, þar á meðal samstarfsfólk í stjórnmálum.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, hefur lýst tali þingmanna Miðflokksins um hana sem hreinu ofbeldi.
Tilkynningin frá Alþingi fer hér að neðan:
„Forsætisnefnd hefur haft til umfjöllunar erindi átta þingmanna er lýtur að ummælum þingmanna á bar 20. nóvember sl. og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum síðustu vikur. Hefur málið verið til athugunar sem mögulegt brot á siðareglum fyrir alþingismenn.
Samkvæmt 17. gr. siðareglna fyrir alþingismenn skal forsætisnefnd gæta þess að málsmeðferð siðareglumála sé í samræmi við meginreglur um óhlutdrægni og vandaða og réttláta málsmeðferð. Þessi krafa um óhlutdrægni getur vart leitt til annars en þess að gera verði sambærilegar kröfur til hæfis þeirra sem koma að ákvörðun máls í forsætisnefnd skv. 17. gr. siðareglna og gerðar eru til úrskurðarnefnda í stjórnsýslu samkvæmt stjórnsýslulögum. Hæfi nefndarmanna forsætisnefndar ber því að meta á grundvelli hæfisreglna stjórnsýslulaga. Við slíkt mat skiptir máli hvernig einstakir nefndarmenn hafa tjáð sig í opinberri umræðu um hátterni þeirra þingmanna sem er til athugunar. Ljóst er af umfjöllun fjölmiðla að fjöldi þingmanna, þ.m.t. forsætisnefndarmenn, hafa tjáð sig um málið með ýmsum hætti og lýst viðhorfum sínum til framgöngu nefndra þingmanna.
Nefndarmenn í forsætisnefnd hafa, að fengnum athugasemdum þeirra þingmanna sem um ræðir, metið hæfi sitt með hliðsjón af þeim ríku kröfum sem gerðar eru til þeirra samkvæmt stjórnsýslulögum. Nú liggur fyrir sú niðurstaða að forseti og allir varaforsetar, hver um sig, hafa sagt sig frá málinu, m.a. vegna ýmissa ummæla sinna um málið. Er þetta gert til þess að taka af allan vafa um mögulegt hæfi og til að tryggja framgang málsins, áframhaldandi vandaða málsmeðferð og að það geti gengið með réttum hætti til siðanefndar.
Forseti Alþingis leggur áherslu á að það siðareglumál sem nú er til meðferðar, sem og öll siðareglumál sem kunna að berast Alþingi, fái vandaða og óvilhalla málsmeðferð. Mun forsætisnefnd því koma saman í byrjun janúar til að fjalla um nauðsynlegar lagabreytingar svo að ekki verði töf á meðferð málsins. Markmið þeirra lagabreytinga er að tryggja að málið geti gengið með réttum hætti til siðanefndar.
Í samræmi við fyrirmæli 4. gr. stjórnsýslulaga mun skrifstofa Alþingis halda því erindi, sem forsætisnefnd hefur móttekið, í réttu horfi þar til viðeigandi breytingar hafa verið gerðar á þingsköpum Alþingis og meðferð mála samkvæmt siðareglum fyrir alþingismenn.