Japanska lyfjafyrirtækið Fuji pharma hefur keypt 4,6 prósent eignarhlut í íslenska lyfjafyrirtækinu Alvotech fyrir 6,2 milljarða króna. Fyrirtækin tilkynntu í nóvember um samstarf þar sem Alvotech þróar og framleiðir líftæknilyf fyrir Japansmarkað. Lyfin eru mikilvæg til meðhöndlunar á ýmsum almennum og erfiðum sjúkdómum líkt og gigt og krabbameini. Þetta kemur fram í frétt RÚV.
Í fréttinni segir jafnframt að Alvotech hafi nýverið fengið framleiðsluleyfi fyrir hátæknisetur fyrirtækisins hér á Íslandi. Það þýði að fljótlega fari að hefjast klínískar rannsóknir á þeim lyfjum sem eiga að fara á markað. Gangi vonir fyrirtækisins eftir verði nýju lyfin markaðssett 2020 og árstekjur fyrirtækisins verði vel á annað hundrað milljarðar króna á ári.
Róbert Wessmann, stofnandi Alvotech, segir þetta ánægjulegar fregnir. „Á skömmum tíma hefur fyrirtækið byggt upp verðmætt lyfjasafn líftæknilyfja, ráðið til sín um 250 vísindamenn, reist eina bestu lyfjaverksmiðju fyrir líftæknilyf í heiminum og gert samstarfssamninga við stór lyfjafyrirtæki í Kína og Japan um sölu líftæknilyfja,“ segir hann.