Fyrrum rekstrarfélag Argentínu steikhúss, BOS ehf., er gjalþrot og verður haldinn skiptafundur á skrifstofu skiptastjóra 21. desember kl. 10:00 og til stendur að ljúka skiptum þá. Þetta kemur fram í Lögbirtingarblaðinu, en mbl.is greinir frá málinu á vef sínum.
Kröfur í þrotabúið nema rúmlega 137 milljónum króna talið er að lítið eða ekkert fáist upp í þær kröfur.
„Argentínu steikhúsi var lokað í apríl síðastliðnum og greint var frá því í fjölmiðlum að hluti starfsfólks hefði ekki fengið greidd laun vegna marsmánaðar. BOS ehf. tók við rekstri Argentínu í október á síðasta ári eftir að fyrrum rekstrarfélag veitingastaðarins, Pottur ehf., varð gjaldþrota í mars á sama ári,“ segir í frétt mbl.is.
Endurskoðunarfyrirtækið KPMG stofnaði BOS ehf. 1. mars á síðasta ári undir nafninu AB596 og nokkrum dögum síðar tók lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson við félaginu.
Í október á síðasta ári var greint frá því í fjölmiðlum að Björn Ingi Hrafnsson væri orðinn eigandi og framkvæmdarstjóri BOS ehf., en það var aðeins til skamms tíma, þar sem félagið fór nær umsvifalaust í gjaldþrot.
Björn Ingi og Sigurður G. Guðjónsson hafa átt í viðskiptum, meðal annars í tengslum við fjölmiðlarekstur Pressunnar ehf., sem nú er í slitameðferð, en Sigurður keypti eignir af Pressunni, skömmu áður en það fór í þrot, og eru þær núna hluti af Frjálsri fjölmiðlun ehf., sem Sigurður á.