Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um eitt prósent á milli mánaða samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands. Vísitala fjölbýlis hækkaði um 0,8 prósent en vísitala sérbýlis um 1,7 prósent.
Árshækkun vísitölu íbúðaverðs mælist nú 5,9 prósent og tekur því dálítið stökk upp á við en 12 mánaða hækkun hennar mældist 4,1 prósent í síðasta mánuði.
Fasteignaverð hefur hækkað mikið undanfarin ár, en á vormánuðum í fyrra mældist árshækkunin 23,5 prósent. Verulega hefur því hægt á verðhækkunum, en 5,9 prósent hækkun telst þó nokkuð mikil hækkun, í alþjóðlegum samanburði.
Raunverð íbúða hefur núna hækkað um tæplega 55 prósent frá því í janúar 2013, og má því segja að hálfgerð gósentíð hafi verið hjá fasteignaeigendum á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum.