Seðlabanki Bandaríkjanna ákvað í dag að hækka vexti um 0,25 prósentustig, úr 2,25 prósent í 2,5 prósent.
Samkvæmt spá sem bankinn kynnti í dag, er dregið úr líkum á miklum og hröðum vaxtahækkunum á næsta ári, og líkur taldar standa til þess að hagvöxtur verði minni í Bandaríkjunum á næsta ári en áður hafði verið gert ráð fyrir.
Vaxtahækkunin kom markaðsaðilum ekki á óvart, sé mið tekið af viðbrögðum fjárfesta á markaði, að því er fram kemur í umfjöllun Bloomberg.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði varað seðlabankann við því að halda áfram að hækka vexti, en þetta var fjórða vaxtahækkunin á árinu. frá árinu 2008 og fram til loka árs 2016 var vöxtum haldi við núllið í Bandaríkjunum, en að undanförnu hafa þeir verið að hækka, í takt við batnandi efnahag.
I hope the people over at the Fed will read today’s Wall Street Journal Editorial before they make yet another mistake. Also, don’t let the market become any more illiquid than it already is. Stop with the 50 B’s. Feel the market, don’t just go by meaningless numbers. Good luck!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) December 18, 2018
Líkur eru taldar á því að verðbólga muni fara hækkandi á næstunni í Bandaríkjunum, og því telur bankinn að frekari hækkun vaxta sé í kortunum.
Á undanförnum vikum og mánuðum hefur Trump gagnrýnt bankann og sagt hann „brjálaðan“ (crazy), að vera að hækka vexti. Hann nefndi einnig að hann vilji hafa vextina við núllið, til að halda hjólum gangandi og útvega fjármagn í fjárfestingar.
Jerome Powell, seðlabankastjóri, er sagður hafa gefið út skýr fyrirmæli, þegar hann tók við stöðu sinni, um að starfsfólk seðlabankans ætti ekki að hlusta á stjórnmálamenn þegar það væri að sinna sinni vinnu.