Samninganefnd Eflingar samþykkti í gær að draga samningsumboð sitt til Starfsgreinasambandsins til baka. Tillaga þess efnis var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta á fundi nefndarinnar. Í kjölfar þess hefur Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, umboð til að ákveða hvort að deilunni verði vísað til ríkissáttasemjara. Hún segir að Efling hyggist vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara sem allra fyrst.
Aðildarfélög Starfsgreinasambandsins höfnuðu því að fara strax til ríkissáttasemjara
Samninganefnd Eflingar veitti Starfsgreinasambandinu samningsumboðið þann 25. september síðastliðinn. Fyrr í þessari viku felldi fundur aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins tillögu um að vísa kjarasamningaviðræðum strax til ríkissáttasemjara. Ellefu félög greiddu atkvæði gegn því en sjö vildu samþykkja. Meðal þeirra sem vildu samþykkja var Efling.
Í kjölfar þess að formannafundur Starfsgreinasambandsins hafnaði því að vísa kjaradeilunni strax til ríkissáttasemjara ákvað Eflingarfólk að endurskoða samflotið. Boðað var til fundar í Eflingu í gær og samkvæmt Sólveigu Önnu var ákvörðunin um að draga umboðið til baka nær einróma niðurstaða fundarins. „Þetta var því sem næst einróma niðurstaða fundarins og næstu skref eru að ég hef heimild frá samninganefndinni til að taka ákvörðun um hvenær við munum vísa viðræðunum til sáttasemjara,“ segir Sólveig Anna í Fréttablaðinu í dag.
Sólveig Anna sagði að félag sitt hefði róttækari sýn á kjarabaráttuna en þeir sem ráða för innan samflots Starfsgreinasambandsins í viðtali við RÚV í gærkvöldi. Hún sagði jafnframt að Efling hygði vísa kjaradeilunni strax til ríkissáttasemjara svo að embættið tæki strax að sér verkstjórn samningaviðræðna við viðsemjendur Eflingar.
Vonast til að félögin geti unnið saman þrátt fyrir niðurstöðuna
Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segist leiður yfir að svona hafi farið í samtali við Fréttablaðið í dag en að hann vonist til að félög landsins muni vinna saman þó að þau verði ekki saman í hóp. „Félög geta auðvitað hvenær sem er dregið umboð sitt til baka ef þau eru ekki ánægð. Það er ákvörðun hvers og eins en auðvitað finnst mér það miður,“ segir Björn.
„Það hefur auðvitað alltaf áhrif ef menn vinna ekki í sameiningu. Þetta þýðir að félögin verða ekki saman í hóp en ég vonast til þess að þau geti unnið saman þrátt fyrir það. Þau félög sem eftir verða innan Starfsgreinasambandsins munu auðvitað fylkja liði og vinna að því að ná góðum kjarasamningum,“ segir hann.
Sólveig Anna segir í samtali við Fréttablaðið að hún trúi ekki öðru en að áfram verið gott samstarf við Starfsgreinasambandið. „Ég vil leggja áherslu á að þrátt fyrir að við séum búin að draga samningsumboðið til baka vona ég og trúi að það verði áfram gott samstarf við félögin innan Starfsgreinasambandsins. Ég reikna ekki með öðru,“ segir hún.
Líklegt að Verkalýðsfélag Akraness og VR fylgi með
Sólveig Anna segir aðspurð ekki ólíklegt að Efling verði í samfloti með VR og jafnvel Verkalýðsfélagi Akraness í að vísa deilunni áfram til ríkissáttasemjara. Með því gætu félögin kosið um verkfallsaðgerðir.
Spurður um mögulegt samflot með öðrum stéttarfélögum í Morgunblaðinu í dag, segir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, að málið sé flókið. Hugsa þurfi allar ákvarðanir og alla leiki vel fram í tímann. „Mín skoðun er sú að eftir því sem við erum fleiri og eftir því sem við erum sameinaðri séum við sterkari og höfum meiri slagkraft,“ segir hann.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sagði í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi að sitt félag myndi líklega fylgja með ef bæði VR og Efling ákvæðu að vísa málinu til ríkissáttasemjara.