Undanfarnar vikur hafa verið skelfilegar á Wall Street en hlutabréf hafa fallið í verði, og nú virðist ljóst, að hlutabréfavísitölurnar enda flestar lægri í lok þessa árs, en þær voru í byrjun ársins.
Í umfjöllun Wall Street Journal segir að fjárfestar hafi tekið fjórum vaxtahækkunum Seðlabanka Bandaríkjanna illa, en nú síðast í gær voru vextir hækkaðir úr 2,25 prósent í 2,5 prósent.
Í dag hefur S&P 500 vísitalan lækkað um 1,5 prósent og olíuverð hefur haldið áfram að lækka. Lækkunin á tunnunni af hráolíu hefur verið mikil, 4,5 prósent. Tunnan kostar nú um 46 Bandaríkjadali en fyrir aðeins um 7 vikum, kostaði hún tæplega 85 Bandaríkjadali. Þetta eru góðar fréttir fyrir Ísland og sparar þjóðarbúinu gjaldeyri, og dregur úr verðbólguþrýstingi.
Tími ódýrra peninga á markaði virðist liðinn, en frá 2008 og fram í desember 2016 hélst vaxtastig nálægt núlli. Þetta leiddi til mikilla fjárfestinga í verðbréfum, með tilheyrandi hækkun á hlutabréfum.
“Our economy is stronger than ever”?
— Ana Navarro (@ananavarro) December 18, 2018
The stock market is on pace to have the worst December since 1931.
Trump’s tariffs, trade-wars and hair-brained economic policies are the real war on Christmas...and 401k’s. https://t.co/LpnleG4k1s
Annað sem hefur valdið fjárfestum miklum áhyggjum á þessu ári, er viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína. Þó það hafi ekki varað lengi, þá virðast fjárfestar hræddir um afleiðingar þess til lengri tíma. Mestu munar um háa tolla á innflutning á stáli og áli, frá 10 til 25 prósent, frá Kína til Bandaríkjanna.
Þetta hefur leitt til kostnaðarhækkana hjá mörgum framleiðendum, meðal annars í bílaiðnaði í Bandaríkjunum. Undanfarna mánuði hafa þeir gripið til uppsagna til að rétta af reksturinn, á mörgum stöðum í Bandaríkjunum.
Staða efnahagsmála í Bandaríkjunum þykir þrátt fyrir lækkanir á hlutabréfamarkaði, nokkuð góð. Atvinnuleysi mælist nú um 4 prósent, og Seðlabanki Bandaríkjanna gerir ráð fyrir að hagvöxtur verið á bilinu 2 til 3 prósent á næsta ári. Þó þykja blikur á lofti, meðal annars vegna þess að verðbólguþrýstingur hefur verið að aukast, og fasteignaverð víða gefið eftir, samhliða því að vextir hafa farið hækkandi á fasteignalánum.