WOW air hefur selt flugtíma sína á Gatwick flugvelli í London í kjölfar endurskipulagningar á rekstri félagsins. Hvorki kaupverð né kaupandi er gefið upp samkvæmt tilkynningu þar sem um trúnaðarsamkomulag er að ræða.
Því mun WOW air hætta að fljúga til Gatwick frá 31. mars næstkomandi og eftir það fljúga eingöngu um Stansted flugvöll í borginni. Þá hefur félagið tilkynnt um að það muni hefha aftur flug til Edinborgar frá og með júnímánuði 2019.
Íslenskir fjölmiðlar greindu frá því skömmu fyrir síðustu mánaðamót að ein fljótlegasta leiðin fyrir WOW air til að verða sér úti um laust fé væri að selja lendingarstæði sín á Gatwick flugvelli. Þau stæði voru með þeim verðmætari í eigu WOW air.
Í síðustu viku var greint frá því að WOW air ynni nú að því að ná samkomulagi við bandaríska fjárfestingafélagið Indigo Partners um að fjárfesta í sér, og gæti sú fjárfesting verið upp á allt að 75 milljónir dala, eða um 9,4 milljarða króna.
Til að áformin gangi eftir þurfa eigendur skuldabréfa WOW air að samþykkja ákveðnar breytingar á skilmálum þeirra útgáfa sem þeir hafa keypt.
Þann 13. desember var tilkynnt um mikinn samdrátt í rekstri WOW air. Vélum félagsins, sem voru 24 fyrir nokkrum vikum síðan, verða ellefu innan skamms. Leiðarkerfi WOW air mun taka breytingum og áfangastöðum fækkað. Þá munu allt að 350 manns missa vinnuna. Þar ef eru 111 fastráðnir starfsmenn auk hlutastarfsmanna og verktaka.
WOW air tapaði alls 33,6 milljónum dala, sem jafngildir um 4,2 milljarði króna, á fyrstu níu mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra nam tap félagsins 13,5 milljónum dala, jafnvirði tæplega 1,7 milljarða króna miðað við núverandi gengi. EBITDA félagsins fór úr því að vera jákvæð um 8,8 milljónir dala fyrstu níu mánuði síðasta árs í að vera neikvæð um 18,9 milljónir dala nú, sem er um 2,3 milljarða íslenskra króna.