Finnsk kona segir Helga Hjörvar, fyrrverandi þingflokksformann Samfylkingarinnar, hafa verið óviðeigandi í samskiptum en hún hitti hann á ráðstefnu Norðurlandaráðs í Helsinki árið 2012. „Mér varð brugðið þegar hann gaf í skyn að hann gæti haft áhrif á starfsframa minn hjá Norðurlandaráði um leið og hann leitaðist eftir kynferðislegu samneyti við mig,“ segir konan í samtali við Stundina en umfjöllun um málið birtist á miðlinum í dag.
Helgi Hjörvar var formaður Íslandsdeildar þegar atvikið átti sér stað
Í umfjöllun Stundarinnar kemur fram að konan hafi verið á þrítugsaldri þegar atvikið átti sér stað og að hún hafi farið á fund Norðurlandaráðs á vegum ungliðahreyfingar finnsks stjórnmálaflokks. Helgi var formaður Íslandsdeildar ráðsins á þessum tíma en hafði tveimur árum áður gegnt embætti forseta Norðurlandaráðs. Guðrún Jóna Jónsdóttir, sem var herbergisfélagi finnsku konunnar í Helsinki, staðfestir í samtali við Stundina að konan hafi komið grátandi til sín eftir samskiptin við Helga. „Hún virtist hafa orðið fyrir miklu áfalli, hún var hrædd og óörugg og grét,“ segir Guðrún.
Helgi Hjörvar var formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs á árunum 2009 til 2013 og formaður þingflokks Samfylkingarinnar frá 2013 til 2016.
Í umfjöllun Stundarinnar segir að málið hafi verið borið upp á stjórnarfundi Samfylkingarinnar árið 2016 en að Helgi Hjörvar hafi þvertekið fyrir að hafa hegðað sér ósæmilega. Í ljósi þess að ekki var kvartað með formlegum hætti undan háttsemi Helga og konan sem átti í hlut vildi ekki koma fram undir nafni eða aðhafast sérstaklega vegna málsins taldi flokksforysta Samfylkingarinnar sig lítið geta gert.
Helgi bauð konunni upp á hótelherbergi
Stundin hafði upp á finnsku konunni eftir ábendingar um málið og féllst hún á að segja blaðinu frá samskiptum sínum við Helga. Stundin reyndi ítrekað að ræða um málið við Helga Hjörvar en hann hefur ekki svarað.
Konan segir frá því, í samtalinu við Stundina, hvernig hún hitti Helga á karíókbar. Hún segist sjálf hafa verið edrú en Helga dálítið drukkinn en samt viðkunnanlegan. „Þegar leið á kvöldið spurði Helgi hvort ég gæti hjálpað honum á hótelið sitt. Við gætum rölt þangað og ég gæti þá virt fyrir mér borgina um leið; þetta yrði smá vettvangsferð. Á endanum varð samt úr að við tókum leigubíl,“ segir konan.
Konan segir að þegar á hótelið var komið hafi Helgi gengið hratt með sér í gegnum lobbíið. „Mér leið skringilega og það var líka eins og hann væri dálítið skömmustulegur og vildi ekki að sæist til okkar. Ég studdi hann alveg upp að hótelherbergi.“ Helgi hafi þá boðið konunni inn á hótelberbergi og boðið henni upp á djús. Konan segir frá því hvernig henni datt í hug að þau gætu spjallað um pólitíkina á Íslandi en hún segir Helga hafa ekki verið spenntar fyrir því. „Hann vildi frekar vita hvernig framtíð ég sæi fyrir mér. Hann spurði hvað ég vildi vinna við og nefndi stöður hjá Norðurlandaráði, hvort ég væri til dæmis spennt fyrir ritarastöðu. Mér fannst hann gefa í skyn að hann gæti, sem áhrifamaður í Norðurlandaráði, haft áhrif á framtíð mína á þessum vettvangi.“
Helgi nuddaði konuna og fór að kyssa hana þangað til hún gaf honum skýr merki um að hætta
Konan segir að talið hafi síðan beinst að blindu fólki og að hún hafi sagt honum frá gömlum blindum manni frá heimaslóðum sínum sem nuddar fólk gegn hóflegri greiðslu. Helgi hafi þá stungið upp á því að þau myndu nudda hvort annað. „Ég lét til leiðast og vildi þá byrja á að nudda hann. Þegar röðin kom að honum að nudda mig sagðist hann ekki geta gert það nema ég færi úr kjólnum. Mér fannst það dálítið óþægilegt en gerði það samt.“
Konan segir að í kjölfarið hafi Helgi gerst ágengari, beygt sig yfir hana og farið að kyssa hana. „Ég fékk óþægilega tilfinningu í magann og mér fannst eitthvað rangt við það sem var að gerast, svo ég gaf honum skýr merki um að hætta.“
Beðin um að segja engum frá
Konan segir að Helgi hafi beðið hana um að verja nóttinni hjá sér en hún hafnað því. „Hann lagði áherslu á það við mig, áður en ég fór, að ég mætti ekki segja neinum frá því sem hefði gerst á milli okkar. Svo rétti hann mér 20 evra seðil og sagði: Gjörðu svo vel, þetta er fyrir leigubílnum. Mér leið eins og vændiskonu, að taka við peningum af manni undir þessum kringumstæðum. Ég fann leigubíl og komst heim fyrir 12 evrur en sagði bílstjóranum að hirða afganginn því ég gat ekki hugsað mér að halda eftir peningunum.“
Konan segir að sér hafi liðið óþægilega yfir því að Helgi skyldi tala um starfsmöguleika hennar hjá Norðurlandaráði í sömu andrá og hann reyndi að eiga kynferðislegt samneyti við hana. Stundin bendir á að á þessum tíma hafi Helgi notið virðingar innan Norðurlandaráðs, hafi verið forseti ráðsins tveimur árum áður og á þessum tímapunkti formaður Íslandsdeildarinnar.
„Mér fannst svo skrítið að þetta væri veruleikinn árið 2012, að við værum enn á þessum stað,“ segir konan „Hann sagði að við yrðum að halda þessu okkar á milli, eins og þetta væri einhvers konar leyndarmál sem tengdi okkur saman. Mér leið eins og ef ég segði einhverjum frá þá myndi ég aldrei hafa möguleika á því að fá starf hjá Norðurlandaráði.“
Samfylkingunni barst ábending um málið árið 2016
Í umfjöllun Stundarinnar segir að þegar Helgi bauð sig fram til formanns Samfylkingarinnar árið 2016 hafi trúnaðarmaður í flokknum leitað til Árna Páls Árnasonar, þáverandi formanns flokksins, og greint honum frá Helsinki-málinu auk orðsróms um annað sambærilegt mál. Árni Páll, sem hafði á þessum tíma tilkynnt að hann gæfi ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku, hafi þá aflað upplýsinga um málin og kallað Helga á sinn fund ásamt þáverandi framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar, Kristjáni Guy. Þeir hafi hvatt Helga eindregið til að draga formannsframboð sitt til baka en Helgi hafi ekki látið segjast.
Eftir að Oddný Harðardóttir vann formannskjörið spurðist fljótt út að Helgi ætlaði að sækjast eftir öðru sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Kjartan Valgarðsson var á þessum tíma formaður fulltrúaráðs flokksins í borginni. Samkvæmt umfjöllun Stundarinnar aflaði Kjartan upplýsinga um málsatvikið eftir að honum var greint frá atburðinum í Helsinki og boðaði til fundar með Helga Hjörvari og Páli Halldórssyni, formanni kjörstjórnar Samfylkingarinnar.
Kjartan og Páll hafi þá beðið þá Helga um að hætta við að bjóða sig fram enda hafi þeir litið svo á að málið væri tifandi tímasprengja fyrir flokkinn, samkvæmt umfjöllun Stundarinnar. Sagt er að Helgi hafi ekki tekið það í mál og vísað öllum ásökunum um óeðlilega háttsemi í Helsinki á bug.
Enn fremur kemur fram í umfjöllun Stundarinnar að eftir fundinn hafi Helgi fundaði með Oddnýju Harðardóttur og tjáð henni að hann ætlaði að halda framboði sínu til streitu, enda hefði hann fullan rétt til að bjóða sig fram. Helgi bauð sig síðan fram og lenti í öðru sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður en missti þingsætið sitt í kosningunum þar sem flokkurinn beið afhroð.
Stundin spurðist fyrir um málið fyrir tveimur árum
Fyrir tveimur árum spurðist Stundin fyrir í Samfylkingunni um hvort að stjórn flokksins hefði borist kvartanir vegna meints kynferðislegs áreitis Helga Hjörvars. Kristján Guy Burgess þáverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar sagði Stundinni að flokknum hafði borist ábendingar í þessa veru og sagði að eins og alltaf væru þær teknar mjög alvarlega. Í umfjöllun Stundarinnar segir að á þeim tíma hafi blaðið ekki náð tali af konunni og því talið að fyrirliggjandi upplýsingar væru of óljósar til að hægt væri að fjalla með ábyrgum hætti um málið.