Gengi krónunnar hefur styrkst mikið að undanförnu, eftir snögga veikingu í haust og fram í byrjun desember. Bandaríkjadalur kostaði rúmlega 125 krónur fyrr í mánuðinum, en kostar nú 117 krónur. Evra var um tíma komin yfir 140 krónur en kostar nú rúmlega 132 krónur.
Svo virðist sem áhyggjur af því að mikill vandi myndi skapast í hagkerfinu, meðal annars vegna fjárhagsvanda flugfélagsins WOW air, hafi koðnað niður. Yfirlýsing Icelandair um að félagið muni auka framboð flugsæta um meira en fjórðung á næstu misserum, hefur meðal annars orðið til þess að slá á áhyggjur um mikil neikvæð margfeldisáhrif af samdrættinum sem WOW air hefur þegar boðað.
Oil price falls to 15-month lows amid slowdown fears https://t.co/AHdUxyPftz
— Financial Times (@FT) December 21, 2018
Ekki liggur enn fyrir niðurstaða í viðræðum WOW air og Indigo Partners, um fjárfestingu síðarnefnda félagsins í WOW air, en þegar hefur verið boðaður umtalsverður samdráttur í starfsemi á næsta ári, sem jafngildir heimsóknum erlendra ferðamanna til Íslands upp á um 180 til 290 þúsund manns á ársgrundvelli.
Undirliggjandi staða íslenska hagkerfisins er góð um þessar mundir, þrátt fyrir að verðbólga hafi farið hækkandi, og mælist nú 3,7 prósent, en verðbólgumarkmið er 2,5 prósent. Viðvarandi viðskiptaafgangur er af viðskiptum við útlönd og var hann 76,5 milljarðar á þriðja ársfjórðungi.
Olíuverð hefur hrunið niður undanfarnar vikur, sem kemur sér vel fyrir Ísland, þar sem það sparar þjóðarbúinu gjaldeyri og dregur úr verðbólguþrýstingi. Tunnan af hráolíu kostar nú 45 Bandaríkjadali en einungis eru um sjö vikur síðan hún kostaði 85 Bandaríkjadali.