Efling, VR og Verkalýðsfélag Akraness gera kröfu um að samningar félaganna við Samtök atvinnulífsins muni gilda frá og með 1. janúar næstkomandi, óháð því hvenær samningar nást. Dragist samningar á langinn verði þeir einfaldlega afturvirkir til þess dags. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Fyrsti fundur með ríkissáttasemjara á morgun
Efling og VLFA klufu sig frá samfloti með Starfsgreinasambandinu í síðustu viku og í kjölfarið vísuðu þau ásamt VR kjaradeilu sinni til ríkissáttasemjara. Á morgun munu stéttarfélögin þrjú senda fulltrúa sína á fyrsta samningafundinn með fulltrúum Samtaka Atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara. Í samtali við Fréttablaðið segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, að fundurinn sé hugsaður til gagnaöflunar fyrir sáttasemjara og ekki sé að vænta stórra tíðinda af fundinum.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins, segir í samtali við Fréttablaðið að með fundinum hefjist ferlið formlega. „Á fundinum munum við fara með ríkissáttasemjara yfir gögn sem við höfum áður farið yfir með félögunum þremur og SGS. Þar eru rúmlega 200 síður stútfullar af tillögum og greiningum frá SA,“ segir Halldór. Hann segir jafnframt að samtímis þeim viðræðum haldi SA áfram að semja við önnur félög sem ekki hafi vísað málinu til sáttasemjara en hann segir að gangurinn í þeirri vinnu sé mjög góður.
Afturvirkni samninga ófrávíkjanleg krafa
Vilhjálmur segir að félögin muni reyna að knýja SA til að svara grundvallarspurningum er lúta að kröfugerð félaganna á fundinum á morgun. Vilhjálmur segir að það sé „ófrávíkjanleg krafa" félaganna þriggja að samningarnir verði afturvirkir til 1. janúar 2019 en þá renna núverandi samningar sitt skeið. Hann segir að það hafi áður gerst að samningar hafi ekki náðst fyrr en mörgum mánuðum eftir að fyrri samningur féll úr gildi og að hver mánuður sem líði án samnings þýði að launafólk verði af allt að fjórum milljörðum króna.
Samkvæmt Vilhjálmi eru fordæmi fyrir því hjá ríkisstarfsmönnum að laun séu leiðrétt afturvirkt þegar svo ber undir, þótt það hafi ekki tíðkast á almenna vinnumarkaðnum. Hann segir að samkomulag um afturvirkni muni gera samningsaðilum kleift að nýta tímann betur og gefa meira andrými til samninga. Vilhjálmur segir að ef ekki náist samkomulag um það þá verði að hraða samningum. „ Afleiðingarnar geta orðið slæmar ef sátt næst ekki,“ segir Vilhjálmur að lokum í samtali við Fréttablaðið.