Ekkert félag sem skráð er í íslensku kauphöllina lækkaði meira en Sýn á árinu 2018, en lækkun þess á árinu nam 38,3 prósentum.
Kaup félagsins á fjölmiðlum 365, sem formlega gengu í gegn 1. desember 2017, hafa ekki reynst happadrjúg fyrir hluthafa, þar sem kostnaður við samþættingu hefur reynst meiri en reiknað var með, samkvæmt tilkynningum til kauphallar.
Markaðsvirðið hefur því hrapað á þessu ári.
Einingarnar sem koma frá 365 innifólu meðal annars fjölmiðla eins og Stöð 2, Stöð 2 Sport, Bylgjuna, FM957, Xið, vísir.is, fréttadeild og auglýsinga- og áskriftarsölu.
Eignir félagsins námu 26,5 milljörðum króna í lok þriðja ársfjórðungs þessa árs og eigið fé félagsins var 10,4 milljarðar. Markaðsvirðið er nú um 12,3 milljarðar.
Í tilkynningu til kauphallar, frá 7. nóvember, kemur fram að reksturinn sé að styrkjast og að samlegðin af kaupunum á eignum 365 sé að aukast jafnt og þétt.
Mesta hækkun í kauphöllinni var hjá félagi sem skráð er á First North markaðinn en stefnir nú á aðallistann. Það er Iceland Seafood, en hækkun á markaðsvirði þess nam rúmlega 34 prósentum á árinu.
Þá hækkaði verðmiðinn á Högum um 30 prósent og á Marel um 14,6 prósent.
Icelandair Group hefur lækkað mikið í kauphöllinni á undanförnum mánuðum, en lækkunin á virði félagsins nam 34,9 prósentum. Markaðsvirði félagsins er nú rúmlega 46 milljarðar en það fór í tæplega 180 milljarða þegar það var í hæstu hæðum, árið 2016.
Heildarviðskipti á árinu námu um 506 milljörðum á árinu en það er um 19 prósent veltuminnkun milli ára. Markaðsvirði skráðra bréfa nam um 960 milljörðum, sem er um 17 prósent aukning frá fyrra ári.