Árið 2018 var mikið tölvuleikjaár, en enginn tölvuleikur var þó vinsælli en Fortnite. Fyrirtækið Epic Games framleiðir leikinn, en stærsti eigandi þess og forstjóri er Tim Sweeney.
Samkvæmt umfjöllun Bloomberg hagnaðist Sweeney um 7,2 milljarða Bandaríkjadala á árinu, eða sem nemur tæplega eitt þúsund milljörðum króna.
Sweeney hefur verið forfallinn tölvuleikjaáhugamaður frá 10 ára aldri, og hefur á sínum starfstíma starfað lengst af við framleiðslu og gerð tölvuleikja. Hinn 47 ára gamli Sweeney hefur verið lengi að, og er þekktur fyrir að vera fær forritari og mikill einfari, í það minnsta framan af ferli sínum.
Current multiplayer developers use two very different transaction frameworks: slow but robust revision control for code, and very loose but fast networking protocols for game state interchange. The need for global transaction consistency will force these to converge. https://t.co/j8YiT5TghN
— Tim Sweeney (@TimSweeneyEpic) December 23, 2018
Hann skapaði sér gott orðspor í tölvuleikjaheiminum þegar hann framleiddi leikinn Unreal sem kom fyrst út árið 1998, sama ár og Google var stofnað.
Frá þeim tíma hefur hann byggt upp Epic Games. Velgengni Fortnite kom mörgum á óvart, en ekkert bendir til þess að vinsældirnar séu að dvína.
Yfir 130 milljónir eru nú sagðir vera að spila Fortnite reglulega. Tekjurnar af leiknum koma mest í gegnum kaup á alls konar varningi og vörum í leiknum.
Leikurinn náði ótrúlega hraðri útbreiðslu, meðal annars með vinsælum dönsum í leiknum.