Ríkisstjórnin ætlar að leggja sitt af mörkum til þess að tryggja kjarabætur fyrir almenning í tengslum við komandi kjarasamninga. Nauðsynlegt sé til að mynda að ráðast í stórátak í húsnæðismálum til að tryggja nægjanlegt framboð af góðu húsnæði á viðunandi verði. Þá séu „allir aðilar sammála um að breyta þurfi tekjuskattskerfinu til að koma sérstaklega til móts við lægri og millitekjuhópa.“
Þetta er meðal þess sem fram kom í áramótaávarpi Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands í gærkvöldi. Þar ræddi hún meðal annars loftlagsmál, sögu íslensks fullveldis, mannréttindamál, stöðu bókarinnar og hlutverk hennar við að viðhalda íslenskunni og mikilvægi þess að horfa til hugvits og nýsköpunar til lengri tíma.
Forsætisráðherra fjallaði einnig umtalsvert um þær kjaradeilur sem framundan eru en fjölmargir samningar á vinnumarkaði urðu lausir um áramót og enn fleiri verða það snemma á árinu 2019. Nú þegar hafa þrjú stéttarfélög, þar á meðal tvö stærstu stéttarfélög landsins, VR og Efling, vísað deilum sínum til ríkissáttasemjara þar sem forsvarsmönnum þeirra fannst liggja fyrir að ekki væri að nást saman án hans aðkomu. Vísun til ríkissáttasemjara er forsenda þess að geta gripið til aðgerða á borð við verkföll.
Katrín sagði í ávarpi sínu að á árinu 2018 hafi hún átt frumkvæði að því að halda reglulega samráðsfundi aðila vinnumarkaðarins. „Ég er sannfærð um að það hafi skipt miklu máli fyrir okkur öll að koma saman á slíkum fundum, fundum sem eru ekki samningafundir heldur vettvangur til að viðra ólíkar skoðanir og leita sameiginlegra leiða. Við verðum öll að nálgast viðfangsefnið af virðingu fyrir þeirri ábyrgð sem við berum en í komandi kjarasamningum felst tækifæri til að stíga nauðsynleg skref að því sameiginlega markmiði að halda áfram að bæta lífskjör alls almennings í samfélagi okkar.“
Nú blasi við það vandasama verk við aðilum vinnumarkaðarins að ná samningum sem stuðli að bættum kjörum, tryggi hagsæld og velferð. „Verkalýðshreyfingin hefur talað fyrir ýmsum félagslegum umbótum eins og hún hefur ávallt gert en hún hefur haft mikil áhrif á íslenskt samfélag alla fullveldissöguna. Réttindi hafa batnað stórkostlega, velferðarkerfi hefur verið byggt upp, heilbrigðiskerfið tekið stakkaskiptum og almenn menntun tekið stórstígum framförum. Um leið eru risastór viðfangsefni framundan; að draga úr kostnaði sjúklinga, byggja upp nýtt félagslegt húsnæðiskerfi, lengja fæðingarorlof og endurskoða skatt- og bótakerfi til að tryggja tekjulægri hópum bætt lífskjör.“
Katrín sagði að þótt samningar á almennum vinnumarkaði séu milli samtaka launafólks annars vegar og atvinnurekenda hins vegar muni stjórnvöld gera sitt til að greiða fyrir þeim. Þar hafi þegar verið ráðist í ýmsar umbætur með uppbyggingu samfélagslegra innviða.„Nauðsynlegt er að ráðast í stórátak í húsnæðismálum til að tryggja nægjanlegt framboð af góðu húsnæði á viðunandi verði. Þá eru allir aðilar sammála um að breyta þurfi tekjuskattskerfinu til að koma sérstaklega til móts við lægri og millitekjuhópa,“ sagði forsætisráðherra.
Hægt er að lesa áramótaávarp forsætisráðherra í heild sinni hér.