Alls námu heildarviðskipti með fasteignir um 550 milljörðum króna á árinu sem var að líða. Árið 2017 voru þau rúmlega 507 milljarðar króna og því jókst heildarvelta um tæplega 8,5 prósent milli ára. Þetta kemur fram í frétt frá Þjóðskrá Íslands.
Uppistaðan af þeim fasteignaviðskiptum sem eiga sér stað á Íslandi eru á höfuðborgarsvæðinu. Þar voru fasteignir keyptar fyrir um 405 milljarða króna á árinu 2018 sem þýðir að um 74 prósent allra peninga sem skiptu um hendur í slíkum viðskiptum gerðu það vegna fasteigna á höfuðborgarsvæðinu.
Dýrara að versla á höfuðborgarsvæðinu
Það var ekki bara umfang fasteignaviðskipta í krónum talið sem jókst milli ára, kaupsamningum fjölgaði einnig. Alls var um 12.500 kaupsamningum þinglýst á árinu 2018 en þeir voru 12.108 á landinu öllu árið 2017. Því fjölgaði þeim um rúmlega 3,2 prósent.
Meðalupphæð á hvern samning í fyrra var um 44 milljónir króna en hafði verið um 42 milljónir króna árið áður. Verðið er hæst á höfuðborgarsvæðinu þar sem meðalupphæð kaupsamnings á árinu 2018 var 51 milljón króna.
Bólan eftir einkavæðingu
Ótrúlegur viðsnúningur hefur orðið á fasteignamarkaði á undanförnum árum. Árin fyrir hrun náði hann sögulegum hæðum samhliða því að aðgengi almennings að lánsfjármagni jókst gríðarlega við einkavæðingu ríkisbankanna og aukið aðgengi bankanna að ódýrri fjármögnun á alþjóðamörkuðum.
Á árunum 1999-2001 var heildarvelta á fasteignamarkaði á Íslandi til að mynda stöðug, eða milli 113 og 115 milljarðar króna á verðlagi hvers árs. Árið 2007 var hún 407 milljarðar króna og hafði þá rúmlega þrefaldast frá árinu 2002, árinu sem söluferli Landsbanka Íslands og Búnaðarbankans fór að mestu fram.
Eftir bankahrunið varð gríðarlegur samdráttur í fasteignaviðskiptum og hálfgert frost ríkti á þeim markaði árum saman. Árið 2009 fór heildarvelta á markaðnum til að mynda undir 100 milljarða króna í fyrsta sinn frá árinu 1998, og þá er veltan ekki uppreiknuð með tilliti til þeirra verðlagsbreytinga sem orðið höfðu á þeim rúma áratug.
Mikil veltuaukning á allra síðustu árum
Staðan var lítið skárri 2010 en markaðurinn tók síðan aðeins við sér árið eftir. Frá 2012 má segja að hann hafi verið á gríðarlegri siglingu og fasteignaverð hækkað feykilega hratt. Frá lokum árs 2010 hefur það raunar tvöfaldast í krónum talið.
Árið 2016 náði veltan því í fyrsta sinn frá hruni að verða meiri en árið 2007, en á því ári jókst veltan um 25 prósent, 92 milljarða króna, á milli ára.
2005 á enn metið yfir flesta gerða samninga
Enn eigum við þó nokkuð í land með því að ná þeim fjölda kaupsamninga sem gerðir voru á árunum eftir einkavæðingu bankanna og fram að hruni. Flestir kaupsamningar á einu ári voru gerðir árið 2005, eða 15.836. Magn gerðra samninga var á svipuðum slóðum bæði 2004 og 2007.
Þetta vekur athygli þar sem landsmenn voru mun færri á þeim tíma en þeir eru í dag, en í lok árs 2005 bjuggu 299.891 manns á landinu. Í lok september 2018 var sá fjöldi 355.620 og landsmönnum hefur því fjölgað um 18,6 prósent á tímabilinu. Samt voru 27 prósent fleiri kaupsamningar gerðir árið 2005 en í fyrra.