Tæknirisinn Apple hefur hrapað í verði um tæplega 10 prósent í dag og hefur verðmiðinn á fyrirtækinu lækkað um tæplega 35 prósent á síðustu þremur mánuðum.
Markaðsvirði fyrirtækisins er nú 679 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 80 þúsund milljörðum króna.
Hæst hefur verðmiðinn á fyrirtækinu farið yfir þúsund milljarða Bandaríkjadala, en nú eru breyttir tímar. Microsoft er nú verðmætasta fyrirtækisins heimsins, með verðmiða upp á 750 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 87 þúsund milljörðum króna.
Apple sendi frá sér afkomuviðvörun í gær, en tekjuöflun fyrirtækisins, einkum í Asíu - þar helst í Kína og Indlandi - hefur verið hægari en fyrri áætlanir fyrirtækisins höfðu gert ráð fyrir. Nú er gert ráð fyrir að tekjur Apple verði á milli 84 og 85 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um tæplega 10 þúsund milljörðum króna.
Það er upphæð sem nemur 2,5 sinnum meira en sem nemur eignum íslensku lífeyrissjóðina, en þær eru nú um 4 þúsund milljarðar króna.
Samkvæmt skrifum Wall Street Journal hafa fjárfestar áhyggjur af því að Apple sé nú á leið inn í erfitt tímabil eftir ævintýralegan uppgang og algjöra endurnýjun, sem hófst árið 2007 með því að fyrirtækið setti iPhone símann á markað árið 2007. Steve Jobs heitinn, fyrrverandi forstjóri og aðaldriffjöðurinn hjá Apple, kynnti þá fyrsta snjallsímann.
Upphafið að miklu blómaskeiði Apple, undanfarin 17 ár, má síðan rekja til þess að fyrirtækið setti i Pod á markað, en uppfærsla á honum var í reynd i Phone síminn.
Þrátt fyrir að Apple sé búið að vera á hraðri niðurleið, þegar kemur að markaðsvirði, þá er óhætt að segja að fyrirtækið eigið töluverða möguleika á því að ná vopnum sínum aftur. Fyrirtækið á nú meira en 250 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 30 þúsund milljörðum króna, í lausu fé frá rekstri.
Það má gera ýmislegt fyrir þá peninga. Það er upphæð sem dugar til að kaupa Netflix, Tesla og Goldman Sachs bankann, og eiga samt næstum 50 milljarða Bandaríkjadala í lausu fé frá rekstri.