Árið 2019 byrjar illa á hlutabréfamörkuðum, bæði á Íslandi og víðast hvar erlendis. Í dag lækkaði vísitala kauphallar Íslands um 1,54 prósent. Mesta lækkunin var virði Icelandair, 2,94 prósent. Áframhald er því á miklum sveiflum á gengi bréfa Icelandair.
Þær hafa verið í báðar áttir, upp og niður, ekki síst vegna þeirra hremminga sem WOW air hefur verið verið í, en ekki er ennþá komin niðurstaða í viðræður félagsins við bandaríska fjárfestingafélagið Indigo Partners.
Vaxandi áhyggjur eru nú af því, að heimsbúskapurinn gæti gefið eftir á þessu ári með hækkandi vöxtum seðlabanka og minnkandi umsvifum. Vextir hafa farið hækkandi í Bandaríkjunum, og eru nú 2,5 prósent, en útlit er fyrir að þeir hækki enn meira, áður en þær lækka aftur.
Svipað er upp á teningnum í Evrópu en áætlun Seðlabanka Evrópu, um skuldabréfakaup á markaði, er nú komin á endastöð og hættir hún formlega síðar í mánuðinum. Hún hefur miðað að því kaupa skuldabréf fyrir um 60 milljarða evra á mánuði, til að örva hagvöxt og liðka fyrir aðgangi fyrirtækja og þjóðríkja að fjármagni.
Samkvæmt umfjöllun Bloomberg eru einnig vaxandi áhyggjur af því að kreppa geti verið handan við hornið, með miklu verðfalli á eignum og meiri hægagangi í efnahagslífinu. Jeff Carbone, einn stjórnenda og eiganda Cornerstone Wealth, segir í viðtali við Bloomberg að fjárfestar séu nú farnir að gera ráð fyrir kreppu. En eins og ávallt, þá sé erfitt að segja til um hvenær og hvernig hún birtist.
Hér á landi hafa undanfarin misseri verið erfið á hlutabréfamarkaði, og umsvif viðskipta minnkuðu nokkuð frá árinu 2018. Heildarviðskipti á árinu 2018 námu um 506 milljörðum en það er um 19 prósent veltuminnkun milli ára. Markaðsvirði skráðra bréfa nam um 960 milljörðum, sem er um 17 prósent aukning frá fyrra ári.
Ekkert félag í kauphöllinni hefur lækkað meira en Sýn, áður Vodafone, en það hélt áfram að lækka í dag. Í fyrra lækkaði það um 38,3 prósent, en lækkunin í dag nam 0,71 prósenti.