Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru 2,3 milljónir árið 2018 eða um 120.600 fleiri en árið 2017, samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ferðamálastofu.
Aukning milli ára nemur 5,5 prósentum, en það er töluvert minni aukning en hefur verið undanfarin ár.
Fjölgunin er minni en undanfarin ár en hún var á bilinu 24,1 prósent til 40,1 prósent milli ára á tímabilinu 2013-2017.
Af einstaka markaðssvæðum voru brottfarir Norður-Ameríkana flestar eða um 794 þúsundir talsins og var mest fjölgun þaðan eða um 115 þúsundir.
Fjölgun var í brottförum erlendra farþega milli ára 2017 til 2018 alla mánuði ársins nema í apríl. Fjölgunin var hlutfallslega mest í maí og september eða um 13 prósent en minnst í mars, júlí, ágúst, nóvember og desember eða á bilinu 1,5 prósent til 3,7 prósent.
Ferðamálastofa áréttar að fjöldi brottfara erlendra farþega gefur vísbendingu um þróun í komum ferðamanna til landsins. Til að álykta um breytingar á umsvifum í ferðaþjónustu þarf að líta til fleiri mælikvarða s.s. fjölda gistinótta og útgjalda ferðamanna.
Af einstaka þjóðernum voru flestar brottfarir árið 2018 tilkomnar vegna Bandaríkjamanna eða um 695 þúsundir talsins. Um er að ræða 20,5 prósent fleiri brottfarir Bandaríkjamanna en árið 2017. Brottfarir Breta komu þar á eftir en þær mældust um 298 þúsundir árið 2018 og voru 24.600 færri en 2017. Samtals voru brottfarir Bandaríkjamanna og Breta 42,9 prósent af heildarbrottförum.