Áframhald var á inngripum Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði í dag, og greip hann þrívegis inn í viðskipti, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Á síðustu þremur viðskiptadögum hefur hann verið iðinn við að grípa inn í viðskipti, með gjaldeyriskaupum, til að vinna gegn veikingu krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum.
Meðal ástæðna fyrir þrýstingu á veikingu krónunnar, er sala erlendra aðila á verðbréfum og skuldabréfum, samkvæmt heimildum Kjarnans. Meðal þeirra erlendu aðila sem hefur verið að losa um stöður í fyrrnefndum eignaflokkum, er fyrirtækið Eaton Vance Management.
Fjárfestingarsjóðir Eaton Vance áttu ríkisskuldabréf, lán, íslensk hlutabréf og kröfur á íslensk félög fyrir samanlagt liðlega 67 milljörðum króna í lok júlímánaðar á þessu ári. Fyrirtækið er umsvifamesti erlendi fjárfestirinn hér á landi og er í hópi tuttugu stærstu hluthafa í fjölmörgum skráðum félögum. Frá þessu var greint í Markaðinum
https://www.frettabladid.is/markadurinn/hatt-i-sjoetiu-milljara-fjarfesting-eaton-vance
, fylgiriti Fréttablaðsins, í nóvember. Af þessari heildartölu voru um 30 milljarðar í óverðtryggðum skuldabréfum.Gengi krónunnar hefur veikst nokkuð að undanförnu, en í dag veiktist krónan um 0,67 prósent gagnvart evru og 0,87 prósent Bandaríkjadal, þrátt fyrir ítrekuð inngrip seðlabankans.
Evra kostar nú 136,5 krónur og Bandaríkjadalur tæplega 120 krónur.
Seðlabankinn hefur ekki upplýst um umfang inngripanna, það er upp á hversu mikið þau voru í hvert skipti. Með inngripum á markað reynir bankinn að koma meiri stöðugleika á gjaldeyrismarkaði, með það að marmiði að vernda gengisstöðugleika og stöðugleika í hagkerfinu.
Verðbólga hefur farið nokkuð hækkandi að undanförnu, og mælist nú 3,7 prósent, en verðbólgumarkmiðið er 2,5 prósent.