Fjárfesting Indigo í WOW air verður aðallega í formi tíu ára breytilegs láns. Árlegir vextir verða greiddir í reiðufé kjósi Indigo að innheimta þá. Höfuðstóll lánsins og ógreiddir vextir verða greiðanlegir þegar lánstímanum lýkur.
Indigo Partners mun eignast 49 prósent í WOW air gangi áformin eftir. Félagið getur hins vegar eignast stærri hlut ef það ákveður að breyta lánum sínum í nýtt hlutafé í samræmi við ákvæði þeirra á lánstímanum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í tilkynningu frá Skúla Mogensen, forstjóra og eiganda WOW air, sem birt var á heimasíðu fyrirtækisins í dag.
Þar segir enn fremur að viðræður standi enn yfir um hvernig staða þeirra sem keyptu skuldabréfaflokk félagsins í fyrrahaust verði eftir endurskipulagningu. Til greina komi að breyta kröfum þeirra í hlutafé áður en Indigo Partners ræðst í sína fjárfestingu eða hvort endursamið verði um skilmála með þeim hætti að skuldabréfaeigendurnir falli frá breytirétti.
Verði fjárfesting Indigo Partners að veruleika þá mun heildar fjárfestingaupphæðin taka mið af fjárþörf WOW air í þeim viðsnúningi á rekstrinum sem stefnt er að á næstu misserum. Þetta sé í takt við þá langtímafjárfestingastefnu sem Indigo Partners hafi sýnt að félagið vinnur eftir þegar það hefur komið að rekstri flugfélaga. Það séu til að mynda 14 ár frá því að félagið fjárfesti í Wizz air, átta ár frá fjárfestingu í Volaris og fimm ár frá því að fjárfest var í Frontier Airlines.
Skuldabréfaeigendurnir munu greiða atkvæði um fyrirliggjandi tillögur. Þeirri atkvæðagreiðslu lýkur 17. janúar næstkomandi.
Tilkynnt var um það í lok nóvember síðastliðins að Indigo Partners hefði náð samkomulagi um fjárfestingu í WOW air.
13. desember var tilkynnt að vélum félagsins muni fækka enn frekar, og verði í nánustu framtíð ellefu eftir að hafa verið 24 fyrir nokkrum vikum síðan. Fjöldauppsagnir eru þegar hafnar hjá WOW air og hætt hefur verið við kostnaðarsöm flug, meðal annars til Indlands, en jómfrúarferð WOW air þangað var farin í byrjun desember 2018. Samkvæmt tilkynningu verður síðasta flug frá Nýju Delí 20. janúar næstkomandi og frá Los Angeles í Bandaríkjunum 14. janúar 2019.
Þann 14. desember var birt yfirlýsing á vef WOW air þar sem kom fram að fjárfesting Indigo Partners í félaginu gæti verið upp á allt að 75 milljónir dala, um 9,4 milljarða króna.
Þann 20. desember var greint frá því að félagið hefði selt flugtíma sína á Gatwick flugvelli í London í kjölfar endurskipulagningar á rekstri félagsins. Hvorki kaupverð né kaupandi var gefið upp samkvæmt tilkynningu þar sem um trúnaðarsamkomulag er að ræða.
Því mun WOW air hætta að fljúga til Gatwick frá 31. mars næstkomandi og eftir það fljúga eingöngu um Stansted flugvöll í borginni. Þá hefur félagið tilkynnt um að það muni hefja aftur flug til Edinborgar frá og með júnímánuði 2019.
Í byrjun þessarar viku var greint frá því að WOW air hafi þurft að fella niður flugferðir til minnst sex flugvalla vegna endurskipulagningar leiðakerfis og fækkun í flota. Þetta á við staði á borð við Los Angelels, San Francisco, Nýju Delí og Chicago en einnig hafa einstaka flug til Kaupmannahafnar, Mílanó og London verið felld niður. Ekki er vitað hversu margar ferðir hafa verið felldar niður í heildina.
WOW air tapaði alls 33,6 milljónum dala, sem jafngildir um 4,2 milljarði króna, á fyrstu níu mánuðum ársins 2018. Á sama tímabili 2017 nam tap félagsins 13,5 milljónum dala, jafnvirði tæplega 1,7 milljarða króna miðað við núverandi gengi. EBITDA félagsins fór úr því að vera jákvæð um 8,8 milljónir dala fyrstu níu mánuði ársins 2017 í að vera neikvæð um 18,9 milljónir dala í fyrra, sem er um 2,3 milljarða íslenskra króna.