Seðlabanki Íslands greip inn í viðskipti á gjaldeyrismarkaði í dag, í það minnsta í tvígang, með gjaldeyriskaupum, til að vinna gegn veikingu krónunnar.
Frá því á föstudaginn í síðustu viku hefur bankinn beitt inngripum á markaði daglega, og undanfarna tvo daga hefur hann gert það í það minnsta fimm sinnum.
Gengi krónunnar gagnvart evrunni hélt áfram að veikjast í dag, og kostar evran nú 137 krónur. Gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal styrktist lítillega og kostar hann nú 118 krónur.
Með inngripum á markaði vill bankinn stuðla að meiri stöðugleika á gjaldeyrismarkaði.
Verðbólga mælist nú 3,7 prósent, en markmiðið er 2,5 prósent.
Einn viðmælenda Kjarnans sagðist telja, að inngrip bankans byggðust líklega á því, að bankinn telji að gengið (nafngengi krónunnar) sé lægra en útreiknað jafnvægisraungengi, samkvæmt útreikningium bankans.
Á þessu ári hefur Seðlabankinn selt evrur fyrir fjóra og hálfan milljarð króna. Seðlabankastjóri segir þetta í samræmi við stefnu bankans og að erlendir krónueigendur hafi verið að losa stöður og líklega einnig lífeyrssjóðir, að því er fram kom í viðtali við Már við RÚV.
Erlendir aðilar hafa verið að selja eignir að undanförnu og færa fjármuni úr landi, og hefur það sett þrýsting á krónuna til veikingar. Á meðal þeirra er Eaton Vance Management.
Skjálftinn á gjaldeyrismarkaði undanfarna mánuði hefur ekki síst verið vegna fjárhagsvanda WOW air, en ekki eru öll kurl komin til grafar enn í honum. Bandaríska félagið Indigo Partners gæti eignast stóran hlut í félaginu, en ekki hefur enn verið samið við skuldabréfaeigendur félagsins. Þeir hafa nú framtíð félagsins að miklu leyti í höndum sér, að sögn vefsins www.turisti.is.
Þá hefur erfið staða í kjaraviðræðum einnig haft áhrif á væntingar á markaði, um að erfiðlega muni ganga að semja um kaup og kjör.