Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands hefur ávaxtað fé sjóðfélaga best allra, sé litið til árabilsins 2000 til og með 2017, eða um 5,8 prósent.
Þetta kemur fram í samantekt hjá Hallgrími Óskarssyni, verkfræðingi og framkvæmdastjóra rannsóknar- og ráðgjafafyrirtækisins Verdicta.is, á Facebook síðu hans.
Hann birtir yfirlit yfir ávöxtun íslenskra lífeyrissjóða með margvíslegum fyrirvörum þó, enda hægt að mæla heilbrigði ávöxtunar lífeyrissjóða út frá ýmsum mælikvörðum.
Ávöxtun eignasafna lífeyrissjóða byggir ekki síst á fjárfestingum í verðbréfum á markaði, og ræður gangur efnahagsmála oft miklu um hvernig til tekst að ávaxta féð. Segja má að tímabilið frá 2007 til og með 2017 haf einkennst á Íslandi af mikilli rússíbanareið, með hruninu 2008 og svo mikilli viðspyrnu frá árinu 2011.
„Í hvaða lífeyrissjóð hefur þú verið að greiða og hvernig hefur hann ávaxtað þínar greiðslur? Hér er ávöxtun lífeyrissjóða frá 2000-2017 (sameignarsjóðir). Við erum öll skylduð til að greiða í þessa lífeyrissjóði en samt hafa þeir ekki viljað birta samanburð á ávöxtun. Það er ekki fyrr en við, „nokkrir menn úti í bæ“ lögðumst í þá vinnu að taka þetta saman að lífeyrissjóðir byrjuðu að ljá máls á því að ætla að gera þetta hugsanlega í framtíðinni. Ekkert bólar samt á því enn. Að vilja ekki birta ávöxtun sjóða lýsir miklum skorti á gagnsæi og vekur áhyggjur að tregða sé til staðar að birta aðrar upplýsingar. Mikil umræða er framundan um þessi mál, skort á gagnsæi sjóða, leynd yfir fjárfestingum, lítil völd sjóðsfélaga, hagsmuni fjárfesta á kostnað sjóðsfélaga o.fl.,“ segir Hallgrímur með annars á Facebook síðu sinni.
Fyrirvararnir sem Hallgrímur nefnir, með birtingu upplýsinganna hér meðfylgjandi, eru þessir:
FYRIRVARAR:
1) Ávöxtun í fortíð er ekki endilega vísbending á ávöxtun í framtíð.
2) Ávöxtun er ekki eini mælikvarðinn á stöðu lífeyris við starfslok en er þó mikilvægasti mælikvarðinn. Fleira skiptir þó máli, eins og að sumir sjóðir stækka séreign með því að setja hluta sameignar í séreign og það hefur áhrif á stöðu hvers og eins við starfslok. Tölurnar í töflunni taka ekki tillit til ávöxtunar á þeim hluta skylduiðgjaldsins sem varið er í séreign, en ávöxtun kann stundum að vera hærri í séreign en í sameign.
3) Munur getur verið á markaðsvirði eigna og bókfærðu virði hjá sumum sjóðum. Margfeldismeðaltalið í töflunni sýnir á bókfært verði eigna. Getur slíkt breytt röð sjóða.
4) Það fæst aðeins annað mat með því að reikna ávöxtun út frá daglegu gengi en hér er reiknað út frá árstölum. Daglegt gengi er hins vegar ekki reiknað nema fyrir tiltölulega fáa sjóði og því er ekki hægt að byggja á því hér.
5) Hér er miðað við ávöxtun sjóðs og forvera hans, þannig að slæmur árangur tiltekinna forvera dregur suma sjóðina niður eðli málsins samkvæmt.
6) Að auki er rétt að hafa þann almenna fyrirvara að ávöxtun er í eðli sínu slembin og getur farið eftir tilviljunum og heppni eða óheppni.